Græja sem lætur vita ef bílstjórinn er við það að dotta mun senn koma á markaðinn. Tæknin, sem er enn á tilraunastigi, tvinnar saman augnhreyfingu og heilastarfsemi og getur reiknað út hvenær athygli og einbeitning dvínar hjá bílstjóra.

Vísindamenn hjá Leicester háskóla eru að þróa vélina og Dr. Matias Ison leiðir verkefnið. Hann segir menn áður hafa getað fylgst með augnhreyfingum og heilastarfsemi en ekki hafi þessir þættir áður verið látnir vinna saman. Útkoman á að geta sagt til um andlegt ástand manneskjunnar á mun nákvæmari hátt en áður var hægt.

Dr. Ison segir einnig að auðvelt sé að greina hreyfingu augna hjá manneskju, svo sem tíðara blikk og breytingar á hreyfimynstri en nú sé hægt að blanda útreikningum á heilastarfsemi saman við augnhreyfingar og þá sé mun auðveldara að reikna út hvort manneskja sé við það að sofna.

Samkvæmt tölum frá umferðareftirliti Bandaríkjanna þá verða 100 þúsund árekstrar, þar sem 40 þúsund manns slasast og 1550 manns láta lífið, á hverju ári vegna bílstjóra sem dotta við stýrið. Sjá nánar á fréttasíðu CNN .