Augu fjárfesta vestanhafs hafa síðustu dægrin beinst að fremur döpru gengi samfélagsmiðilsins Facebook á hlutabréfamarkaði. Gríðarlegar væntingar voru til skráningarinnar á föstudag. Í hlutafjárútboði á fimmtudag fóru hlutabréf í Facebook á genginu 38 dali á hlut og rauk það upp í 44 þegar best lét í fyrstu viðskiptunum. Gengi hefur ekki gert neitt nema lækka síðan þá og endaði gengið í 31 dal á hlut þegar hlutabréfamarkaðir lokuðu í Bandaríkjunum í gær. Gengisfallið nam 18% ef miðað er við hlutafjárútboðið en tæp 30% ef miðað er við hæsta gengi bréfanna á fyrsta viðskiptadegi. Markaðsverðmæti fyrirtækisins hefur að sama skapi fuðrað upp. Það var 104 milljarðar dala í fyrstu viðskiptum. Heilir 30 milljarðar dala hafa fokið út um gluggann síðan þá eða sem nemur landsframleiðslu Íslands í tvö ár.

Greiningarfyrirtækið Needham & Co . segir reyndar stöðu Facebook sterka þrátt fyrir þetta. Í nýju verðmati á félaginu er mælt með því að fjárfestar kaupi hlutabréf í fyrirtækinu og verðmiðinn 40 dali á hlut sett á það. Þótt það sé nálægt upphafsverði hlutabréfanna þá er það 29% hækkun frá lokagenginu í gær. Í verðmatinu er Facebook enn líkt við Google og gert ráð fyrir að tekjur fari úr 3,71 milljarði dala í fyrra í 6,5 milljarða á þessu ári.

Tæknifyrirtækjum í Bandaríkjunum hefur reyndar ekki staðið undir væntingum á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum upp á síðkastið. Ástæðan hefur einkum verið sú að fjárfestum hefur verið blásin mikil gróðavon í brjóst í aðdraganda skráningar. Verðmiði þeirra hefur hækkað í takt við væntingarnar - og iðulega verið langt yfir mörkum að mati greiningaraðila.

Google: Úr 100 dölum í 600

Hlutabréfaspekúlantar líktu reyndar lengi vel skráningu Facebook á markað við það þegar Google var skráð og er hún fyrirmynd margra vestanhafs eins og Össur og Marel eru fyrirmynd fyrir Frónbúa. Hlutabréf fyrirtækisins voru tekin til viðskipta á markaði í ágúst árið 2007. Gengi hlutabréfanna stóð í 108 dölum á hlut í fyrstu viðskiptum dagsins og fór það niður í 100 dalina nokkrum dögum síðar. Hlutafallslega er það ekki mikil lækkun. Það tók að rísa hratt eftir það og var gengið komið í 185 dali á hlut um hálfu ári eftir skráningu. Það jafngildir 71% hækkun. Ári eftir skráningu hafði það hækkað um 100 dali til viðbótar. Gengi hlutabréfa Google stendur nú átta árum síðar í 600 dölum á hlut.

Hér eru svo dæmi um nokkur af þeim tæknifyrirtækjum sem hafa verið skráð á markað síðustu mánuði:

Groupon: - 54%

Afsláttar- og hópkjarafyrirtækið Groupon var skráð á markað vestanhafs í nóvember í fyrra. Gengi hlutabréfanna stóð í tæpum 26 dölum á hlut í fyrstu viðskiptum dagsins. Það hélst næsta óbreytt í nokkra daga uns það féll niður í 15 dali undir lok mánaðar. Gengisfallið nam rúmum 40%. Það jafnaði sig fljótt en hefur sigið rólega niður síðan í febrúar í fyrra. Gengið stendur nú í 11,95 dölum á hlut sem jafngildir 54% gengishruni á rétt rúmu hálfu ári.

Zynga: - 25%

Bandaríska tölvuleikjafyrirtækið Zynga, sem þróaði m.a. netleikinn FarmVille sem hægt er að spila á Facebook, var svo skráð á hlutabréfamarkað í desember í fyrra. Gengið var 9 dalir á hlut í fyrstu viðskiptum dagsins og hækkaði það lítillega eftir því sem á leið. Hæst fór gengið í 14,69 dali á hlut í mars síðastliðnum og jafngilti það 63% hækkun frá í desember. Gengið gerði ekkert nema lækka eftir þetta og stendur það nú í 6,8 dölum á hlut, sem jafngildir tæplega 25% lækkun frá fyrsta viðskiptadegi.

Linedin: + 22%

Linkedin var sem dæmi skráð á hlutabréfamarkað vestra fyrir ári síðan. Daginn fyrir skráninguna var gengi hlutabréfa fyrirtækisins 45 dalir á hlut. Það rauk upp í 83 dali í fyrstu viðskiptum dagsins. Það gerði reyndar lítið annað en að lækka í kjölfarið og var komið í 63 dali á hlut mánuði síðar. Gengið rauk reyndar upp í kjölfarið og fór yfir hundrað dalina mánuði eftir að botninum hafði verið náð. Það hrundi svo á ný og stendur nú í 101 dal á hlut. Það jafngildir tæplega 22% hækkun frá fyrstu viðskiptum. Ef miðað er við gengi bréfanna fyrir skráningu nemur hækkunin 124%