Á vefsíðu Airbnb er að finna 3.903 auglýsingar á gistirýmum á Íslandi. Í ársbyrjun 2015 voru auglýsingarnar rúmlega 1.700. Þetta þýðir að framboð á gistiplássi gegnum síðuna hefur aukist um 124% á einu ári. Þetta kemur fram í frétt Túrista.is .

Þá má til samanburðar nefna að í stærsta hóteli landsins, Fosshóteli við Höfðatorg, eru 320 herbergi í boði. Frá því í október á síðasta ári hefur gistiplássið í Airbnb aukist um heil 400 auglýsingar.

Vægi Airbnb á íslenskum gistimarkaði hefur aukist gífurlega. Fyrirtækið býður upp á fleiri gistirými en stærstu hótelkeðjur landsins samanlagt - Íslandshótel, Icelandair Hotels og Kea hótel bjóða samtals upp á 2.829 herbergi - um 1.000 færri herbergi en Airbnb.