Alþingi mun eftir hádegi í dag greiða atkvæði um Icesave frumvarpið. Þriðja og síðasta umræðan um frumvarpið stóð yfir til klukkan hálfþrjú í nótt.

Allt stefnir í að nokkur meirihluti verði fyrir málinu á Alþingi þar sem forysta og stór hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins hefur lýst yfir stuðningi við frumvarpið opinberlega. Frumvarpið var samþykkt eftir 2. umræðu á Alþingi með 40 atkvæðum gegn 11.

Auk þess að greiða atkvæði um frumvarpið munu þingmenn einnig greiða atkvæði um þrjár breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram, þar af tvær um að það verði háð niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort lögin taki gildi.

Rúmlega 29 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til Alþingis um að hafna frumvarpinu. Kosið er á vefnum kjosum.is en jafnframt er skorað á forseta Íslands að synja lagafrumvarpinu staðfestingar verði það samþykkt á Alþingi.