Alls voru greiddir 5,6 milljarðar króna í auðlegðarskatt á síðasta ári, samkvæmt tölum Ríkisskattstjóra en hann hefur nú lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga. Frumálagning auðlegðarskatts fer nú fram í fjórða sinn og endurálagning í þriðja sinn.

Á vef fjármálaráðuneytisins kemur fram að auðlegðarskattur var lagður á sem tímabundin aðgerð og rennur samkvæmt lögum út um næstu áramót. Skatthlutfallið við álagningu 2013 er 1,5% af eign á bilinu 75-150 milljónir hjá einhleypum og 100-200 milljónir hjá hjónum en 2,0% af eign umfram þessi mörk.

Auðlegðarskatt greiða nú 5.980 aðilar, eða alls 3.100 fjölskyldur. Þetta gerir alls tæplega 5,6 milljarða króna sem er 0,3% lækkun á milli ára. Viðbótarauðlegðarskattur á hlutabréfaeign var lagður á 4.988 gjaldendur og nam 3,5 milljörðum.króna sem er 44% aukning á milli ára. Samanlagt hækkar auðlegðarskattur um liðlega 13% milli ára.

Íbúðareigendum fjölgaði lítillega
Á vef fjármálaráðuneytisins kemur líka fram að framtaldar eignir heimilanna námu 3861 milljörðum króna í lok síðasta árs og jukust um 6,9% frá fyrra ári. Fasteignir töldust 2679 milljarðar króna að verðmæti, eða 69% af eignum,  og jókst verðmæti þeirra um 9% milli ára. Íbúðareigendum  fjölgaði lítillega á ný, eftir fækkun þrjú ár í röð.

Skuldir heimilanna jukust um 1,5%
Framtaldar skuldir heimilanna námu 1.785 milljörðum króna við síðustu áramót og jukust um 1,5% á árinu. Til samanburðar drógust skuldir heimilanna saman um rúmlega 6% árið 2011. Framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa námu 1.159 milljörðum króna sem er 3,1% aukning milli ára.

Eigið fé heimila í fasteign sinni er nú í heild tæplega 57% af verðmæti þeirra samanborið við tæplega 55% árið áður. Tæplega 26 þúsund af 94 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess.