Tafir á afhendingu 787 Dreamliner mun við fyrstu sýn engin áhrif hafa á Icelandair en félagið á fimm vélar pantaðar og valrétt á þremur til viðbótar.

Eins og fram hefur komið mun afhending á nýjustu Boeing flugvélaverksmiðjunar, 787 Dreamliner tefjast fram á haustið 2009 en upprunalega var áætlað að afhenda vélar til notkunar í maí á þessu ári. Þetta er í þriðja sinn á sex mánuðum sem Boeing frestar afhendingu 787 Dreamliner.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandir Group sagði í samtali við Viðskiptablaðið að þrátt fyrir að þær tafir sem orðið hafa á afhendingu vélarinnar sé enn ekkert sem bendi til þess að það muni hafa áhrif á rekstur Icelandair.

Eins og fyrr segir á Icelandair pantaðar fimm vélar.Til stendur að afhenda tvær þeirra árið 2010, aðrar tvær árið 2012 og eina árið 2013.

Gera má ráð fyrir að einhver flugfélög sæki rétt sinn gagnvart Boeing sökum tafa á afhendingu vélarinnar. Nú er um rúmlega 800 vélar pantaðar frá verksmiðjunni og hefur enginn flugvél selst jafn hratt.

Guðjón segir að Icelandair sé í stöðugum samskiptum við Boeing og fylgst verði nánar með gang mála.

„Þessi tilkynning kemur ekki alveg á óvart. Við höfum verið í nánum samskiptum við Boeing og munum eiga fundi á næstunni með þeim til að fara yfir stöðuna. Við höfðum ekki gert áætlanir um að taka þessar vélar inn  í rekstur okkar þannig að í sjálfu sér er ekki ljóst á þessu stigi hvaða áhrif þetta hefur á okkur. Það er þó ljóst að vélarnar eru eftir sem áður mjög eftirsóttar á alþjóðlegum flugvélamarkaði," sagði Guðjón.