Óvissa er um hvort framhald verði á greiðslu neyðarláns Norðurlandanna, Evrópusambandsins (ESB) og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) til lettneskra stjórnvalda.

Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, lýsti því yfir í vikunni að ekki komi til frekari greiðslna nema stjórnvöld gangi enn lengra í niðurskurði í rekstri ríkisins. Wall Street Journal hefur eftir ráðherranum að það yrði erfitt að réttlæta frekari lánafyrirgreiðslu nema stjórnvöld í Ríga standi við samþykkta skilmála, en þeir fela í sér gríðarlega mikinn niðurskurð á ríkisfjármálum.

Eins og fram kemur í umfjöllun The Daily Telegraph hafa stjórnvöld átt í erfiðleikum með að hrinda í framkvæmd 20% niðurskurði í lífeyrisgreiðslum og 15% lækkun launa í opinbera geiranum. Aðgerðirnar eru forsenda þess að næsti hluti hins tæplega 8 milljarða evra neyðarláns verði greiddur út.

Þessar gríðarhörðu aðhaldsaðgerðir leggjast ofan á tæplega tuttugu prósenta samdrátt á hagvexti og stigvaxandi atvinnuleysi. Vaxandi óþolinmæði lánardrottna gagnvart stjórnvöldum í Ríga hefur verið vatn á myllu þeirra sem telja að ekki verði komist hjá gengisfellingu.

Nánar er fjallað um málið í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag.