Skeljungur er nú kominn að öllu leyti í eigu hjónanna Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundar Þórðarsonar, og viðskiptafélaga þeirra, Birgis Þórs Bieltvedt. Íslandsbanki seldi í síðustu viku 49% hlut sinn í Skeljungi til Svanhildar Nönnu en áður höfðu þau þrjú fyrrnefndu átt 51% hlut í gegnum félagið Skel Investments. Sá hlutur var keyptur í ágúst 2008 á um 1,5 milljarða króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Þar með lauk fjárhagslegri endurskipulagningu á Skeljungi sem stóð yfir samhliða söluferlinu. Það hófst 24. nóvember í fyrra en dótturfélag Íslandsbanka, Miðengi, hélt á eignarhlutnum í Skeljungi og annaðist söluna. Kaupverðið fæst ekki uppgefið en samkvæmt heimildum er það umtalsvert lægra en þegar 51% hlutinn í félaginu var seldur í ágúst 2008.

Enginn dans á rósum

Ljóst er að nýir eigendur munu þurfa að glíma við krefjandi rekstur á næstu misserum. Staða Skeljungs í árslok 2008 var ekki góð eins og svo margra annarra íslenskra fyrirtækja. Í lok árs 2008 var eigið fé félagsins neikvætt um rúmlega 1,8 milljarð. Skammtímaskuldir voru sérstaklega þungar, tæplega14 milljarðar af rúmlega 18 milljarða heildarskuldum. Rekstrarlán, eða svonefnd hlaupareikningslán, námu þar af tæplega átta milljörðum króna. Langtímaskuldir voru í lok árs 2008 4,2 milljarðar. Breytingarnar á fjárhagsstöðu fyrirtækisins frá árslokum 2007 og fram til loka árs 2008 eru miklar og taka öðru fremur mið af þeim efnahagslegu hamförum sem gengu yfir á árinu 2008. Í lok árs 2007 námu heildarskuldir Skeljungs um 10 milljörðum en um ári síðar voru þær um 18 milljarðar. Viðskiptavild í reikningum var á árinu 2007 rúmlega fjórir milljarðar en ári síðar var hún enn há, þrátt fyrir mikla rekstrarerfiðleika. Hún nam rúmlega þremur milljörðum. Ekki liggur fyrir ársreikningur hjá Skeljungi fyrir árið 2009 en gera má ráð fyrir að fjárhagsstaðan hafi eitthvað batnað við endurskipulagninguna á fjárhag félagsins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa núverandi eigendur m.a. kannað þann möguleika að hætta að reka stöðvar félagsins undir nafni Shell til að spara kostnað sem því fylgir. Eftir athugun var ákveðið halda áfram að reka stöðvarnar undir merkjum Shell.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu.