Isavia greindi frá því vikunni að útlit væri fyrir að fimmtán flugfélög myndu fljúga um Keflavíkurflugvöll næstu mánuði, en síðasta vetur voru flugfélögin sautján talsins. Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, segir að bandarísku flugfélögin Delta og United Airlines hafi bæði tilkynnt um að þau muni ekki fljúga hingað í vetur. Verði áfram sömu aðgerðir á landamærunum gætu fleiri flugfélög hætt við Íslandsflug í vetur.

Í frétt sem birtist á vef Viðskiptablaðsins í gær kom fram að útlit sé fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna verði talsvert undir spám greiningardeilda bankanna. Horfurnar gjörbreyttust þegar aðgerðir á landamærum voru hertar í byrjun ágúst. Guðmundur Daði segir að góð byrjun á sumrinu sýni að Ísland hafi tækifæri til að vaxa hratt aftur sem ferðamannastaður en að ríkari kröfur á ferðamenn hér heldur en í nágrannaþjóðum dragi verulega úr eftirspurn og ferðavilja hingað.

„Ef hér væru sambærilegar reglur og annars staðar værum við mögulega með ekkert ólíka umferð um flugvöllinn á mánuði og á árunum 2016-2017,“ segir Guðmundur Daði.

Isavia lagði fram spá í maí um að fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll yrði um tvær milljónir í ár. Í lok ágúst nemur farþegafjöldinn tæplega einni milljón. Guðmundur Daði telur að þetta markmið náist á síðustu fjórum mánuðum ársins en bætir við að Isavia hafi þó verið farið að setja markið hærra í sumar.

„Eftir góða byrjun á sumrinu töldum við mögulegt að fjöldi farþega yrði rúmlega 2,5 milljónir. Þessi tala er þó orðin hæpin núna miðað við þessa ríku kröfu á landamærunum. Það lítur frekar út fyrir að farþegar verði í kringum 2,0-2,3 milljónir. Við ættum að geta náð 300-400 þúsund farþegum á mánuði ef flugfélögin halda sér við núverandi áætlanir.“

Hann segir of snemmt að spá fyrir um fjölda ferðamanna fyrir næsta ár en vonast eftir því að staðan verði skýrari í lok október. Eftir fimm vikur verði haldin ráðstefnan World Routes, stærsta ráðstefnan í fluggeiranum, en þar er að vænta nánari upplýsinga frá flugfélögum. Þá muni Icelandir og Play líklega tilkynna bráðlega áfangastaði og áætlun fyrir næsta sumar

Byggja þarf markaðinn upp aftur

Tekin var fyrsta skóflustungan að 20 þúsund fermetra viðbyggingu við Keflavíkurflugvöll í byrjun sumars. Bæta á við fjórum nýjum hliðum, með landgöngubrúm, sem verða þá sautján. Áætlaður heildarkostnaður er um 21 milljarður.

„Við erum að ráðast í gríðarlega miklar framkvæmdir sem eru nauðsynlegar fyrir flugvöllinn til að vaxa. Það afar mikilvægt að þegar þessar nýju byggingar koma í notkun verði farþegar og flugfélög til að nota þá aðstöðu. Þetta er ekki eins og að skrúfa frá krana, hér geti allt fyllst af flugfélögum og ferðamönnum þegar okkur þóknast. Það þarf að byggja markaðinn upp aftur,“ segir Guðmundur Daði.

Nánar er rætt við Guðmund Daða í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .