Innanríkisráðuneytið hefur birt drög að breytingu á reglugerð sem taka á gildi 1. ágúst næstkomandi, sem myndi takmarka notkun á bílum sem hafa orðið fyrir tjóni.

Felst breytingin í því að ekki megi taka tjónabifreið í notkun á ný nema viðgerð á henni hafi farið fram á viðurkenndu réttingaverkstæði.

Tjónaökutæki er skilgreint í reglugerðardrögunum sem ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Þetta kemur fram í frétt ráðuneytisins. Skuli þá skilgreina og skrá ökutækið sem tjónaökutæki og er notkun þess bönnuð.

Þá er viðurkennt réttingaverkstæði skilgreint á þann veg að það sé búið búnaði til viðgerða á ökutækjum eftir fyrirmælum framleiðenda og skal verkstæðið vottað af aðila sem viðurkenndur er af Einkaleyfastofu.