Allt hlutafé í fjarskiptafyrirtækinu Tali (IP fjarskiptum ehf.) verður selt í opnu útboðsferli sem hefst með birtingu auglýsingar um miðjan maí. Öllum fjárfestum sem uppfylla lagaskilyrði um fagfjárfesta stendur til boða að bjóða í hlutaféð,  öðrum en þeim sem hafa markaðsráðandi stöðu á fjarskiptamarkaði. Samkvæmt fréttatilkynningu verðu áhersla lögð á að söluferlið verði opið, gagnsætt og auðskilið. Verðbréfafyrirtækið Tindar verðbréf mun annast söluna.

"Tal er þriðja stærsta fjarskiptafyrirtækið á Íslandi og varð til við samruna Hive og Sko árið 2008. Tal sérhæfir sig í alhliða fjarskiptaþjónustu við heimili og er með um 15% hlutdeild á þeim markaði. Tal hefur frá upphafi lagt áherslu á að bjóða þjónustu á lægra verði en keppinautarnir og stuðla þannig að aukinni samkeppni á fjarskiptamarkaði," segir í fréttatilkynningu frá Teymi.

Nýi Landsbankinn (NBI) fer nú með 82 prósenta eignarhlut í Tali, en bankinn tók m.a. yfir 32% hlut Fjallaskarðs í Tali, en það félag hét áður Capital Plaza ehf. og var í eigu Jóhanns Óla Guðmundssonar. Að auki tók Landsbankinn yfir 62% Teymi, sem fer með helmingshlut í Tali, í gegnum eignarhaldsfélagið Vestia.