Unnið er samkvæmt rýmingaráætlun við að koma fólki af hættusvæðum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli sem hófst um miðnættið. Þá er lögreglan að loka fyrir umferð til Austurs frá Selfossi og íbúðar á höfuðborgarsvæðinu hafa verið hvattir til að aka ekki austur þar sem það getur valdið truflun vegna rýmingar.

Kristján F. Kristjánsson íbúi í Kirkjulækjarkoti segir mikla eldsúlu stíga upp að því er virðist úr austasta hluta jökulsins og gosið hafi færst talsvert í aukana frá því það var fyrst. Hann sagði að nokkrir íbúar í byggðinni í Kirkjulækjarkoti hafi þegar yfirgefið staðinn, en hann ætlaði sjálfur að bíða átekta ásamt sinni fjölskyldu. Gert væri ráð fyrir að íbúar á svæðinu færu ef mikið færi að bera á eldingum, en enn sem komið er hafa engar eldingar sést úr gosmekkinum.

Það er einkum flóð vegna bráðnunar jökulsins sem menn hafa verið að óttast að geti flætt yfir láglendið í kringum Markarfljót. Hins vegar virðist gosið vera nánast á Fimmvörðuhálsinum sjálfum þar sem jökullinn er þynnstur þannig að líkurnar á miklum flóðum verða minni en ella.

Svæðin sem verið er að rýma eru Fljótshlíðin og svæðin vestan Markarfljóts, en íbúar þaðan eiga að fara til Hvolsvallar og Hellu. Aðrir fara í Skálakot. Gert er ráð fyrir að íbúar við Skóga fari til Víkur í Mýrdal að því er kemur fram í upplýsingum frá Almannavörnum.

Þrjár fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins hafa verið opnaðar á Hellu, Hvolsvelli og í Vík. Sjálfboðaliðar Rauða krossins taka á móti fólki, en Hjálparsími Rauða krossins 1717 hefur verið virkjaður og tekur á móti símtölum frá aðstandendum öðrum sem vilja fá upplýsingar vegna gossins.