Hlutabréf lækkuðu nokkuð í Asíu í dag eftir að hafa hækkað talsvert í gær en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar voru það helst fjármálfyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins ásamt flutningafyrirtækjum.

Viðmælandi Bloomberg segir að hækkunin í gær komi ekki til með að halda þar sem hjöðnun bandaríska hagkerfisins hafi nú þegar smitað út frá sér til annarra landa. Þá eru flutningafyrirtæki sérstaklega nefnd þar sem dregið hefðu verulega úr tekjum þeirra síðustu misseri.

Þá voru kínverskir bankar áberandi í lækkunum dagsins en sem dæmi má nefna að Bank of Communications lækkaði um 5,2%, China Citic um 3,5% og Compal um tæp 7%.

MSCI Kyrrahafs vísitalan lækkaði í dag um 2,3% eftir að hafa hækkað um 3,9% í gær.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 1,8%, í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 2% og í Kína lækkaði CSI 300 vísitalan um 2,5%.

Mest var þó lækkunin í Tævan þar sem Taiex vísitalan lækkaði um 3,5% en í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 1,4% og í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 1,7%.