Hagvöxtur hér á landi hefur verið nægur til að draga úr slaka efnahagslífsins, fjölga ársverkum og minnka atvinnuleysi. Þetta skilar því að dregið hefur úr brottflutningi frá landinu. Á næstu tveimur árum má búast við að dæmið snúist við og fleiri flytji hingað en af landi brott.

Greining Íslandsbanka fjallar um mannfjöldatölur Hagstofunnar í Morgunkorni sínu í dag þar sem fram kemur að á þriðja ársfjórðungi hafi 280 fleiri flutt frá landinu en til þess. Það er nokkuð minni brottflutningur nettó en á sama tíma í fyrra þegar 850 fleiri fluttu frá landinu en til þess. Það sem af er ári hafa 880 fleiri flust frá landinu en til þess. Í fyrra stóð fjöldinn í 1.395 og því ljóst að dregið hefur út brottflutningi.

Bent er á það í Morgunkorninu að brottflutningur náði hámarki árið 2009 þegar 4.835 fleiri fluttu út en hingað.

Margir fluttu hingað fyrir hrun

Greining Íslandsbanka segir ennfremur að frá hruni, þ.e. á síðustu fjórum árum, hafi 9.283 fleiri flutt frá landinu en til þess.

„Þetta er mikill fjöldi ef haft er í huga að þjóðin telur einungis ríflega 320 þús. manns. Þó verður að hafa í huga að á þenslutímanum fyrir hrun fluttu mun fleiri til landsins en frá því. Þannig fluttu 15.391 fleiri til landsins en frá því á fjögurra ára tímabilinu frá 2005 til 2008. Þannig er fækkunin sem hefur átt sér stað frá hruni ekki nema 60% af þeirri fjölgun sem átti sér stað á fjögra ára tímabili fyrir hrun,“ segir í Morgunkorninu.