Byggingavöruverslunin Byko, sem er í eigu Norvik-samstæðunnar, tapaði 390,8 milljónum króna í fyrra, samanborið við 352,4 milljóna króna tap árið 2011.

Velta dróst saman um rúmar 160 milljónir króna milli ára og nam 10.305,7 milljónum króna. Framlegð af vörusölu minnkaði um 100 milljónir og nam 3.135,1 milljón.

Fram kemur í uppgjöri Byko að launakostnaður minnkaði um rúmar 80 milljónir, en þrátt fyrir það jókst rekstrartap um 26 milljónir á milli ára og nam 238,1 milljón króna.

Afskriftir námu 114,6 milljónum í fyrra og hrein fjármagnsgjöld námu 135,7 milljónum. Tap fyrir tekjuskatt nam 488,2 milljónum í fyrra samanborið við 444 milljónir árið 2011. Hlutafé var aukið um 500 milljónir í fyrra og jókst eigið fé því úr 1,1 milljarði í 1,2 milljarða. Skuldir lækkuðu um 25 milljónir og námu í árslok 3.349,6 milljónum króna og eignir námu á sama tíma 4.557 milljónum.