Rafbílaframleiðandinn Tesla Motors tapaði 74,7 milljónum dala, andvirði um 9,2 milljarða króna, á þriðja ársfjórðungi og er þetta ríflega tvöfalt meira tap en á sama tímabili í fyrra.

Þrátt fyrir þetta hækkaði gengi bréfa félagsins um 5% eftir að uppgjörið var gert opinbert. Á þriðja fjórðungi seldi fyrirtækið 7.785 Model S bifreiðar, sem er 41% aukning frá sama tímabili í fyrra. Hins vegar lækkaði fyrirtækið söluspá sína fyrir árið í heild sinni og gerir ráð fyrir að í ár muni Tesla selja 33.000 bíla.

Fyrirtækið segir að tapið á fjórðungnum megi rekja til hækkandi framleiðslu- og þróunarkostnaðar. Þá mun fjárfesting aukast í verksmiðju Tesla í Kalíforníu til að auka framleiðslugetuna í 2.000 bifreiðar á viku. Hins vegar greindi fyrirtækið frá því að ný útgáfa af bílnum, Model X, myndi ekki líta dagsins ljós fyrr en haustið 2015, en áður var gert ráð fyrir því að nýi bíllinn kæmi á markað á fyrri hluta næsta árs.