Huld Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Apótek Grill, segir að þótt tekjur hafi dregist saman um allt að 70% á árinu sé hún bjartsýn á að það takist að halda rekstrinum í horfinu. Sumarið hafi verið mjög skemmtilegt enda allir Íslendingar heima.

„Síðustu ár hafa gengið mjög vel hjá okkur, síðasta ár gekk alveg ágætlega þrátt fyrir fækkun ferðamanna og það hélt sig nokkurn veginn jafnt tekjulega frá fyrra ári þótt þær minnkuðu aðeins. En að sjálfsögðu setur það sem er í gangi núna með faraldurinn strik í reikninginn hjá okkur, þótt við séum alveg vel í stakk búin fyrir allt sem getur gerst og ættum við að geta þreyjað þennan þorra," segir Huld Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Apótek Grill.

„Núna í ár hafa svo eins og gefur að skilja verið miklar breytingar, það er mikill tekjumissir, sérstaklega því það eru engir ferðamenn. Að sama skapi var sumarið í ár mjög skemmtilegt og gekk það vel miðað við allt. Allir Íslendingarnir voru auðvitað heima á landinu  og duglegir að fara út í sumar, svo  þetta var aðeins öðruvísi en síðustu ár.

Það skemmdi ekki fyrir að það var líka svo gott veður en við settum upp risasvæði fyrir utan og var hér fullt alla daga. Við erum með hátt í 80 starfsmenn hér hjá okkur í heildina, en sem betur fer þurftum við þó ekki að segja neinum upp. Við nýttum okkur hlutabótaleiðina eins og önnur fyrirtæki þegar ástandið byrjaði, en strax í sumar þegar viðskiptin fóru aftur á smá ról gátu allir starfsmenn okkar komið í fullt starf aftur."

Rekstur Apótek Grill á síðasta ári skilaði 11,4 milljónum króna í hagnað sem var helmingun frá árinu áður, en nú segir Huld líklegt að sá hagnaður minnki því tekjurnar hafi dregist saman um einhver 60 til 70%.

„Við höfum alltaf verið heppin með það að Íslendingar koma mikið til okkar, en það vantar núna aðeins að fylla inn í á virkum dögum en þá hafa ferðamennirnir verið að bæta upp það sem vantað hefur  inn. Um helgar eru 80 til 90% viðskiptavinanna Íslendingar, en virku kvöldin hafa verið meira ferðamenn, þá er það kannski skipt til helminga, Íslendingar og ferðamenn," segir Huld.

Með sæti fyrir 120 manns

Huld segir að ákveðið hafi verið að loka staðnum þegar 20 manna hámarksreglan í einu rými var sett á í fyrra skiptið. Þegar þetta er skrifað og ný bylgja kórónuveirufaraldursins er í hæstu hæðum og 20 manna reglan aftur komin í gildi segir Hulda ekki enn búið að taka ákvörðun um hvernig Apótek Grill bregðist við, en hún telur samt að það ætti að vera hægt að halda rekstrinum opnum enda fólk búið að aðlagast faraldrinum.

„Að sjálfsögðu er hægt að hafa opið enda fylgjum við öllum reglum, en það virðist vera að fólk haldi  sig meira heima, en eins og staðan er núna getum við tekið á móti 20 manns. Það er erfitt fyrir okkur sem erum með sæti fyrir 120 gesti að reka veitingastað þegar það mega bara vera 18 gestir í húsinu," segir Huld.

„Annað sem við höfum þurft að minnka við okkur er að undanfarið höfum við einungis getað verið með opið til 11 á kvöldin, en við vorum alltaf með opið til 1 á nóttunni. Síðan hafa þeir nýlega takmarkað það við 9 á kvöldin, svo þarna erum við að missa stóra tekjulind því við erum til dæmis með sterkt kokteilaprógram sem hefur allt dottið út, því miður. Þó að yfirvinna byrji eftir miðnætti þá munar mjög miklu um þessa tíma, þeir vega mikið í sölu áfengra drykkja og töpum við miklu á þessu."

Bjartsýn á jólaösina

Huld Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Apótek Grill, er þrátt fyrir allt bjartsýn fyrir komandi mánuðum. „Maður veit auðvitað ekki framhaldið enda bylgja í gangi í faraldrinum núna og svo óttast menn að hún geti tekið sig aftur upp í  desember þegar fólk fer á ferð meira," segir Huld sem vonast til þess að sóttvarnaaðgerðirnar sem eru í gangi komist fyrir vandann.

„Nú fer jólasessionið að hefjast sem hefur alltaf verið mjög sterkt hjá okkur. Við byrjum með sérréttaðan jólamatseðil um miðjan nóvember og hefur alltaf verið brjálað að gera alveg frá 15. nóvember og út allan desember. Þá erum við bæði með jólalunch, og svo jólaútgáfu af klassíska eftirmiðdagsteinu okkar, og sækja mikið af hópum, vinnustöðum, fjölskyldum og öðrum í þetta hjá okkur."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .