Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er afdráttarlaus í árlegri skýrslu sinni um íslenskt efnahagslíf þegar kemur að frekari beitingu þjóðhagsvarúðartækja til að halda aftur af vaxandi kerfisáhættu vegna stöðunnar á fasteignamarkaði - grípa þurfi til frekari ráðstafana í þágu þjóðhagsvarúðar.

Hætta á að markaðurinn staðni

Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis, hefur áhyggjur af því þegar reynt er að stjórna markaði með mörgum kaupendum og seljendum líkt og á fasteignamarkaðinum með aðgerðum sem eru byggðar á takmörkuðum upplýsingum. „Undir slíkum kringumstæðum er hættan sú að gert sé of mikið, eða of lítið, sama í hvora áttina er farið,“ segir Konráð.

Hann segir að þegar vextir hafi verið hækkaðir jafn hratt og raun ber vitni, geti það hvort tveggja sett frekari hækkunum skorður eða jafnvel leitt til lækkana á fasteignamarkaði. Undir slíkum kringumstæðum geti aðgerðir líkt og þær sem gripið var til í júní á þessu ári leitt til þess að vextirnir hafi meiri áhrif en áætlað hafi verið. „Helsta hættan er þá sú að markaðurinn staðni enn frekar og draga fari úr veltu á markaðinum. Erfiðara verði að selja húsnæði sem leiði til þess að minna verði um byggingu húsnæðis,“ segir Konráð.

Þá nefnir hann aðstæður líkt og í fjármálakrísunni 2008 þar sem húsnæðisverð hækkaði of mikið, féll síðan og slökkti á byggingamarkaði, þannig að ekkert var byggt. Hins vegar myndist ennþá þörf fyrir eftirspurn og þegar hún loksins komi þá komi framboðið alltof seint. „Það er versta mögulega niðurstaða þess að fara í svona miklar aðgerðir núna. Það er hins vegar ólíkleg niðurstaða.“ Aftur á móti sé ekki sama staða uppi núna og var í fjármálakreppunnni þar sem ekkert var byggt í langan tíma að hluta til vegna þess að það hafi ekki borgað sig. „Fasteignaverð var svo lágt miðað við byggingakostnaðinn. Það er mikilvægt að forðast þessar aðstæður. Svo lengi sem fasteignaverð þróast þannig að það borgi sig að byggja nýtt húsnæði, þá er það á góðum stað.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.