Heildartekjur hins opinbera jukust um 5% og heildarútgjöld jukust um 4,3% á þriðja ársfjórðungi 2015, samanborið við fyrra ár. Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð sem nemur 4,1 milljarði króna á fjórðungnum, en það er betri niðurstaða en árið áður þegar tekjuafkoman var neikvæð um 5,5 milljarða. Þetta kemur fram í nýjum Hagtíðindum frá Hagstofu Íslands sem birtist nú í morgun.

Útgjaldaaukning hins opinbera er að mestu skýrð af hærri launakostnaði og aukningi í tilfærsluútgjöldum. Heildarútgjöldin voru 232,1 mjilljarður á fjórðungnum og hækkar um 9,7 milljarða milli ára.

Heildartekjur hins opinbera eru áætlaðar 228 milljarðar á fjórðungnum, en eins og áður sagði er það hækkun um 5% frá fyrra ári. Skatttekjur og tryggingagjöld eru skiluðu 199,7 milljörðum en það er 4,8% aukning milli ára.

Neikvæður rekstrargrunnur

Bráðabirgðatölur benda til þess að heildartekjur ríkissjóðs á rekstrargrunni hafi verið 168,3 milljarðar króna á 3. ársfjórðungi 2015 og heildarútgjöld 172,0 milljarðar króna. Tekjujöfnuður ríkissjóðs er því neikvæður um 3,7 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, eða sem nemur 0,6% af landsframleiðslu ársfjórðungsins.

Skuldir og eignir lækka

Peningalegar eignir ríkissjóðs námu 1.035 milljörðum króna í lok 3. ársfjórðungs 2015, en það nemur 48,4% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Eignir drógust saman um 6% frá fyrri ársfjórðungi en á sama tíma hefur dregið úr skuldum ríkissjóðs um 3,1%. Skuldir í lok 3. ársfjórðungs 2015 námu 1.905 milljörðum króna. Sem hlutfall af landsframleiðslu námu skuldir 89,1% af (áætlaðri) landsframleiðslu 3. ársfjórðungs en þær voru 98,9% af landsframleiðslu á sama tímabili árið áður.