Tekjur HS Veitna jukust um 9,2% á milli ára og námu 4 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Hagnaður félagsins eftir skatta nam 429 milljónum króna, samanborið við 374 milljónir á fyrri árshelmingi 2020.

Rekstrarhagnaður (EBIT) hjá HS Veitum á fyrri helmingi ársins hækkaði um 23,7% frá fyrra ári og var rétt yfir einum milljarði króna.

Eignir félagsins lækkuðu lítillega frá áramótum og námu 30,5 milljörðum í lok júní. Eigið fé var um 14,4 milljarðar, skuldir 16,1 milljarðar og eiginfjárhlutfallið var 47,2%. Félagið greiddi ekki út arð á tímabilinu en keypti eigin bréf fyrir 500 milljónir króna.

HS Veitur er í 50,1% eigu Reykjanesbæjar, HSV Eignarhaldsfélag slhf fer með 49,8% hlut, og Suðurnesjabær með 0,1% hlut. HSV, sem er að mestu í eigu lífeyrissjóða, keypti 15,4% hlut Hafnarfjarðarbæjar í vetur. Heimildir Viðskiptablaðsins hermdu að kaupverðið hafi verið um 3,5 milljarðar en Hafnarfjarðarbær færði til bókar 3,3 milljarða söluhagnað vegna viðskiptanna í ársreikningi fyrir árið 2020.