Frjálshyggjufélagið telur að hlutdrægari fjölmiðill en Ríkisútvarpið sé vandfundinn. Þar með sannist að ríkisrekstur fjölmiðils sé óþarfur.

Í ályktun félagsins sem send var fjölmiðlum í dag segir að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi tekið eindregna afstöðu með aðild Íslands að Evrópusambandinu og samþykkt Icesave-frumvarpsins og rekið markvissan áróður fyrir þeim málstað sínum undir því yfirskini að þar séu sagðar fréttir.

„Í byrjun þessarar viku keyrði þetta um þverbak, þegar birtar voru niðurstöður Gallup-könnunar um afstöðu landsmanna til þessara tveggja stærstu mála íslenskra stjórnmála þessa stundina," segir í ályktuninni.

„Um var að ræða fyrstu skoðanakönnun sem gerð er um afstöðu til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu frá því að Alþingi samþykkti að leggja inn slíka umsókn og fyrstu skoðanakönnun sem gerð er um afstöðu landsmanna til Icesave-frumvarps ríkisstjórnarinnar."

Ekki eina dæmið um áróður RÚV

Í ályktuninni segir að allir íslenskir vefmiðlar nema ruv.is hafi gert könnununum skil. Þá hafi verið greint frá þeim í erlendum fjölmiðlum.

„Fréttastofa Ríkisútvarpsins, undir stjórn Óðins Jónssonar og Páls Magnússonar, ákvað hins vegar að minnast á hvoruga könnunina. Ekki var að finna staf um málið á fréttavef ruv.is, ekki var minnst á það í útvarpsfréttum og þaðan af síður í sjónvarpsfréttum."

Því er bætt við í ályktuninni að þetta sé fjarri eina dæmið um áróður Ríkisútvarpsins í umræddum málum.

„Frjálshyggjufélagið harmar að fréttastofu Ríkisútvarpsins sé beitt með þessum hætti en bendir um leið á að þetta er aðeins enn eitt dæmið sem sannar tilgangsleysi þess að ríkið standi í fjölmiðlarekstri."

Ríkisrekstur fjölmiðils óþarfur

Í lok ályktunarinnar segir svo: „Telji menn að það megi ekki gerast að allir fjölmiðlar séu í einkaeigu þar sem umfjöllun um þjóðmál verði þá ekki hlutlaus þykir Frjálshyggjufélaginu rétt að vekja hér athygli á þeirri staðreynd að hlutdrægasta fréttastofa landsins er fréttastofa Ríkisútvarpsins. Sú röksemd sem einna mest er notuð fyrir ríkisrekinni fréttastofu fellur því um sjálfa sig og enn sannast að ríkisrekstur fjölmiðils er óþarfur. Í núverandi efnahagsástandi hefðu margir landsmenn eflaust viljað sleppa því að greiða um 17.000 krónur í rekstur Ríkisútvarpsins. Frjálshyggjufélagið tekur undir með þeim."