Greiningardeild Íslandsbanka telur að veikingahrina krónunnar gangi til baka að verulegu leyti á næstunni og þegar áhrif vaxtagjaldagans fjari út muni krónan halda áfram í hægfara styrkingarfasa á næstu mánuðum. Næsti stóri vaxtagjalddagi af þessu tagi er síðan ekki fyrr en í júní, en þá er lokagjalddagi stysta ríkisbréfaflokksins, RIKB09 0612. Sá skuldabréfaflokkur er svipaður að stærð og sá sem greitt er af í dag, og útlendingar eiga einnig verulegan hluta hans.

Greiningardeildin bendir á að veikingarhrinu síðustu daga megi líklega rekja til vaxtagjalddaga á ríkisbréfaflokknum RIKB10 0317 sem er í dag, þriðjudag. Vaxtagreiðslan nemur 7% af nafnvirði bréfanna og telur flokkurinn samtals tæpa 71 ma. kr. Vaxtagreiðslan nemur því um 5. mö kr. Greiðsla þessi mun að stærstu leyti renna í vasa erlendra fjárfesta, sem eiga stóran hluta þessa skuldabréfaflokks.

Ekki þarf að koma á óvart að stórir vaxtagjalddagar á borð við þennan hafi áhrif á gjaldeyrismarkaði til veikingar enda geta erlendir eigendur bréfanna keypt gjaldeyri samkvæmt gildandi gjaldeyrislögum. Þá skapast talsverðar væntingar um veikingu í kringum stóran vaxtagjalddaga af þessu tagi sem hefur viðbótaráhrif til veikingar krónunnar segir í Morgunkorni.