IFS Greining spáir 0,7% hækkun á vísitölu neysluverðs í apríl. Samkvæmt spánni hækkar tólf mánaða verðbólga úr 2,3% í 2,7% og fer þannig aftur upp fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans.

„Bensínhækkun hefur einna mestu áhrifin á hækkun vísitölunnar en það hefur hækkað um 3,3% frá síðustu mælingu. Að okkar mati liggur helsti óvissuþátturinn varðandi þróun verðbólgunnar til næstu mánaða í innfluttri verðbólgu. Aukinheldur gætu mögulegar launahækkanir þrýst verðlagi upp á við,“ segir í Morgunpósti IFS í dag.

Verðbólguspá IFS Greiningar:

Tólf mánaða verðbólga hækkar úr 2,3% í 2,7%

Verðbólguspá okkar fyrir apríl hljóðar upp á hækkun vísitölu neysluverðs um 0,7%. Til samanburðar var hækkun vísitölunnar 0,25% (3% á ársgrundvelli) í apríl 2010. Ef spáin gengur eftir, mun 12 mánaða verðbólga mælast 2,7% og verður þar með komin aftur yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Verðbólga undanfarna þrjá mánuði á ársgrundvelli hækkar úr 5% í 12%. Hagstofan mældi vísitölu neysluverðs í síðustu viku en niðurstöðurnar verða birtar fimmtudaginn 28. apríl n.k.

Enn hækkar bensín

Verð á bensíni hefur hækkað um 3,3% og dísel um 2,7% frá síðustu mælingu (samtals vísitöluáhrif: +0,18). Flugfargjöld í utanlandsflugi lækkuðu lítillega í mars og gerum við ráð fyrir 10% hækkun, aðallega vegna mikilla eldsneytisverðhækkana undanfarið(vísitöluáhrif: +0,12).

Húsnæðisliðurinn hækkar

Samkvæmt gögnum FMR hefur fermetraverð hækkað um 1,3% síðustu þrjá mánuði, aðallega vegna fjölbýlis (vísitöluáhrif: +0,16).

Matarkarfan hækkar einnig samkvæmt mælingu IFS

Mánaðarleg verðmæling IFS bendir til 0,9% hækkunar á verði matarkörfunnar (vísitöluáhrif: +0,13%) eftir að hafa hækkað um 1,4% í janúar og 0,8% í febrúar og lækkað um 0,2% í mars. Mæling á verði matarkörfunnar er framkvæmd á ákveðnum vörum sem nær ávallt eru til sölu og svo virðist sem að þær hafi stöðugt hækkað í verði frá því í desember.

Horfur næstu mánuði

Nokkurrar óvissu gætir um þróun hrávöruverðs næstu mánuðina. Olíuverð gæti tekið að lækka og það gæti haft tímabundin hjöðnunaráhrif á íslenskt verðlag. Innflutt verðbólga er því einn stærsti óvissuþátturinn sem og mögulegar launahækkanir innanlands sem aftur gætu þrýst upp verðlagi. Bráðabirgðaspá okkar fyrir maí frá því í janúar hljóðaði uppá 0,2% hækkun VNV en eins og áður sagði ríkir þónokkur óvissa um þróunina á næstunni.