Arion banki mun skoða hvort í framtíðinni sé ástæða til að tilgreina breytingar sem verða frá tilkynningu um niðurstöðu hlutafjárútboða og þar til tilboðsgjafar hafa greitt fyrir þá hluti sem þeim var úthlutað.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Arion banka við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í þarsíðustu viku þá voru ógreiddir greiðsluseðlar upp á um 774 milljónir króna felldir niður eftir að þeir höfðu ekki verið greiddir á eindaga. Samtals voru það um 5,7% allra áskrifta. Seljendur í útboðinu seldu því um 25,4% í útboðinu en ekki 27% eins og gert hafði verið ráð fyrir og tilkynnt hafði verið um eftir að útboðið fór fram.

Eins og fjallað var um áður voru ógreiddir greiðsluseðlar vegna tilboða í tilboðsbók B sem ætluð er fagfjárfestum sem vilja fjárfesta fyrir 15 milljónir eða meira. Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins kemur fram að bankinn geti ekki tjáð sig um einstakar áskriftir. „Við getum ekki tjáð okkur um einstaka áskriftir. Þó upphæðin sem ógreidd var í lok eindaga í þessu tilfelli hafi verið hærri en í síðastliðnum útboðum, þá má rekja stærsta hlutann til mjög fárra aðila sem tengdust. Aflað var upplýsinga um fjárhagslegan styrk þeirra en eftir sem áður greiddu þeir ekki greiðsluseðlana. Að öðru leyti voru ógreiddir greiðsluseðlar ekkert umfram það sem við höfumséð í öðrum útboðum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .