Að mati Greiningar Íslandsbanka er líklegt að Bakkavör haldi áfram að auka við hlut sinn í Geest á næstu vikum. Eftir lokun markaða í gær var tilkynnt að Bakkavör Group hafi aukið við hlut sinn í Geest. Keyptir voru rúmlega 3,3 milljón hlutir til viðbótar við þá rúmlega 7,6 milljón hluti sem þegar hafði verið tilkynnt um. Samtals á Bakkavör því nú tæplega 11 milljón hluti í Geest eða samtals 14,72% af útgefnu hlutafé í félaginu.

Í tilkynningu síðastliðinn föstudag kom fram að Bakkvör hefði ekki í hyggju að yfirtaka félagið að sinni og gæti minnkað eða aukið hlut sinn í framtíðinni. Félagið hefur svigrúm samkvæmt reglum London Stock Exchange til þess að auka hlut sinn upp í 30% en getur ekki farið yfir það hlutfall á næstu sex mánuðum.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að gengi Geest hækkaði mikið síðastliðinn föstudag vegna vangaveltna um að félagið yrði yfirtekið en eftir að stjórnendur Bakkavarar létu í ljós þá skoðun að slíkt væri ekki á dagskrá að sinni hefur það gefið eftir. Lokaverð gærdagsins var 557 pens á hlut.