Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn um frumvarp um ársreikninga, en ráðið telur frumvarpið að mestu til bóta. Viðskiptaráð fagnar einföldun regluverks en telur þó að skilgreining á örfélögum sé þrengri heldur en tilskipun Evrópusambandsins, að það ætti að nýta heimild til að undanskilja örfélög frá skyldu til að skila ársreikningum til opinberrar birtingar og einnig eru gerðar athugasemdir við breytingar á viðurlagaákvæðum ársreikningalaga.

Skilgreining örfélaga þrengri

Samkvæmt frumvarpinu er örfélög skilgreind sem félög sem fara ekki yfir mörkun á a.m.k. tveimur af eftirfarandi viðmiðum:

  1. 20 milljónir í niðurstöðutölu efnahagsreiknings
  2. 40 milljónir í hreinni veltu
  3. 3 í meðalfjölda ársverka

Viðskiptaráð bendir á að þessi skilgreining á örfélögum er mun þrengri en sú skilgreining sem er sett fram í tilskipuninni. Röksemdirnar fyrir því voru að hlutfall örfélaga yrði þá um 90% allra félaga í landinu, en með þrengri skilgrieningu er hún 80%. Ráðið telur þessa skilgreiningu ófullnægjandi að ákveða að hlutfallið ætti að vera 80% í stað 90%, eða hvaða skaði myndi verða af því að hlutfallið yrði 90%.

Örfélög undanskilin

Viðskiptaráð leggur einnig til að nýtt verði heimild í tilskipuninni til að undanskilja örfélög frá því að skila ársreikningum til opinberrar birtingar, en slík birting getur verið mjög íþyngjandi fyrir örfélög. Slík félög eru oft stofnsett til að halda utan um rekstur einyrkja, en í slíkum tilvikum ætti að gæta í meira mæli að persónuverndarsjónarmiðum.

Viðurlagaákvæði of ströng

Viðskiptaráð gerir að lokum athugasemdir við breytingar á viðurlagaákvæðum ársreikningalaga. Ársreikningaskrá skal leggja sektir að fjárhæð 600.000 krónur á félög sem vanrækja skyldur sínar að standa skil á ársreikningi eða samstæðreikningi til opinberrar birtingar innan tilskilins frests eða leggja fram ófullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi. Ráðið telur það óeðlilegt að sömu viðurlög liggi við því að skila ekki inn ársreikningi og að leggja fram ófullnægjandi upplýsingar.

Viðskiptaráð gerir einnig athugasemd við að ársreikningaskrá skuli leggja fram kröfu um gjaldþrotaskipti ef félag hefur ekki skilað inn ársreikningi eða samstæðureikningi þegar átta mánuðir eru frá því að félag átti að skila inn ársreikningi. Sömu viðurlög eru við því að skila inn ófullnægjandi upplýsingum eða skýringum með ársreikningi. Viðskiptaráð telur þessa breytingu afar íþyngjandi og hvetur til þess að skoða aðrar leiðir til að ná fram sama markmiði.