Söluverð 66,6% hlutafjár í Sjóvá til eignarhaldsfélagsins Þáttar ehf. fyrir 17,5 milljarða króna samsvarar um 26,2 ma.kr. verðmæti Sjóvár. Er það verulega hærra en Greiningardeild KB banka áætlaði í síðasta verðmati sínu á bankanum, miðað við þar tilgreindar forsendur. "Að mati Greininingardeildar er því um að ræða mjög jákvæðar fréttir fyrir hluthafa Íslandsbanka. Fyrir það fyrsta skila viðskiptin bankanum góðum hagnaði, samstarf og samvinna á sviði bankaþjónustu og vátrygginga helst óbreytt auk þess sem salan kemur til verulegrar styrkingar á eiginfjárgrunni bankans, að upphæð ríflega 15 milljarða króna," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Íslandsbanki keypti allt hlutafé Sjóvár fyrir 18 mánuðum á 19,4 milljarða króna, en Sjóvá hefur greitt bankanum 3,5 milljarða króna í arð frá þeim tíma. Viðskiptin gefa tilefni til endurskoðunar á síðasta verðmati okkar á bankanum segir greiningardeild KB banka.

Undir þeta tekur greiningardeild Landsbankans. "Það verð sem Þáttur greiðir Íslandsbanka fyrir Sjóvá er umtalsvert hærra en verðmat okkar á félaginu hljóðar upp á. Sýn eigenda Þáttar á íslenska tryggingamarkaðnum virðist því í grundvallaratriðum ólík okkar sýn. Auk þess má gera ráð fyrir að eiginfjárkrafa Þáttar sé talsvert lægri en sú krafa sem við höfum gert á rekstur Sjóvár og/eða að fjármögnunarkjör Þáttar séu mjög hagstæð," segir í Vegvísi Landsbankans.

Greiningardeild Landsbankans bendir á að salan styrkir eiginfjárgrunn Íslandsbanka um ríflega 15 milljarða króna, bæði vegna þess að viðskiptavild tengd Sjóva hverfur úr bókunum, en einnig vegna þess að frádráttur vegna lágmarksgjaldþols Sjóvár lækkar hlutfallslega við CAD útreikning.

"Miðað við núverandi eiginfjárstefnu bankans skapar þessi hækkun, að öðru óbreyttu, svigrúm fyrir mögulegan 200 milljarða króna útlánavöxt. Hámarksáhætta sem bankinn getur nú tekið vegna eins aðila hefur auk þess hækkað töluvert. Því er ljóst að salan á Sjóvá mun styrkja Íslandsbanka verulega. Salan á Sjóvá gefur tilefni til endurskoðunar á verðmati okkar á Íslandsbanka," segir í Vegvísi Landsbankans.