Hætta er á að Seðlabankinn sé að segja sig frá hagstjórninni í næstu uppsveiflu með því að lækka ekki vexti nú þegar niðursveifla er hafin, segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í leiðara í fréttabréfi samtakanna þar sem hann gagnrýnir vaxtastefnu bankans.

Vilhjálmur segir þar að með hækkun stýrivaxta sé Seðlabankinn á öfugu róli miðað við hagsveifluna og muni því frekar magna sveiflurnar en að draga úr þeim.

Vilhjálmur bendir á að gagnrýni SA á vaxtahækkanir Seðlabankans hafi vakið athygli enda hafa samtökin og bankinn oft verið sammála um stöðu og stjórn efnahags- og peningamála. Hann bendir á að SA hafa talið að forsendur bankans fyrir síðustu vaxtahækkunum hafi verið rangar en stýrivextir eru nú komnir uppí 13,5%.

Að mati SA hefur Seðlabankinn mislesið stöðuna bæði á vinnumarkaðnum og íbúðamarkaðnum. Fyrirtæki hafa almennt farið eins nákvæmlega eftir samkomulaginu 22. júní og kostur hefur verið og allar fréttir af íbúðamarkaðnum benda til þess að verðhækkanir hafi stöðvast og hægja muni verulega á framkvæmdum. Vilhjálmur bendir hins vegar á að Seðlabankinn reiknaði hins vegar með launaskriði í kjölfar júnísamkomulagsins og að íbúðaframkvæmdir myndu vaxa milli áranna 2006 og 2007 og að það framkvæmdastig myndi líka nánast haldast út árið 2008. "Fyrirsjáanlegur samdráttur í framkvæmdum við álver og virkjanir á næsta ári ásamt samdrætti í íbúðaframkvæmdum eru lykilþættir í samdrætti eftirspurnar í hagkerfinu á árinu 2007 og forsendan fyrir því að hægt sé að ná verðbólgunni niður í kjölfar júnísamkomulagsins. Þetta virðist ætla að ganga eftir þar sem offramboð hefur verið að myndast á nýjum íbúðum en KB banki spáir því að um 1000 nýjar íbúðir verði óseldar um áramót," segir Vilhjálmur.

Einnig bendir Vilhjálmur á að verðbólguvæntingar hafa gjörbreyst. Fyrir júnísamkomulagið virðist svo sem fyrirtæki hafi almennt verið að taka ákvarðanir um verðlagningu og kostnaðarhækkanir út frá um 10% verðbólguvæntingum fyrir næstu misseri og allt stefndi í tveggja stafa verðbólgutölu á árinu 2007. Með samkomulaginu hafa ákvarðanir fyrirtækja miðast við að verðbólgan væri á leiðinni niður í markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu. Þetta kom berlega í ljós í verðbólgumælingum í byrjun júlí og ágúst. Sé litið framhjá útsöluáhrifum var hækkun vísitölu neysluverðs innan við 1% í júlíbyrjun og innan við 0,5% í ágústbyrjun. Ný mæling fyrir septemberbyrjun er væntanleg í næstu viku og verði mælingin án útsöluáhrifa innan við 0.5% liggur fyrir að verðbólgan er á hraðri og öruggri niðurleið. Hækkun á launavísitölu í ágústbyrjun sem mældi framkvæmd launahækkananna eftir júnísamkomulagið sýndi líka að fyrirtæki höfðu beitt miklu aðhaldi.

En af hverju þá að gagnrýna vaxtahækkanirnar -- spyr Vilhjálmur. Hjálpa þær ekki til? "Það er að sjálfsögðu mat Seðlabankans að svo sé, en Samtök atvinnulífsins eru þessu ósammála. Með stefnu sinni er Seðlabankinn á öfugu róli miðað við hagsveifluna og mun því magna sveiflurnar frekar en að draga úr þeim. Bankinn sér ekki það sem flestir aðrir þykjast sjá að niðursveiflan sé hafin og verðbólgan sé að lækka mjög hratt, verulega hraðar en í viðmiðunarmörkum SA og ASÍ. Í niðursveiflunni er nauðsynlegt að bankinn sé í vaxtalækkunarferli og að gengi krónunnar sé frekar veikt. Lækkun verðbólgunnar nú gerist vegna þess að umframeftirspurnin í hagkerfinu er að dragast hratt saman með minni fjárfestingum miklu frekar en vegna hækkandi gengis krónunnar. Að mati SA stefnir í að botninn í hagsveiflunni verði um mitt næsta ár og að mánaðarlegar hækkanir vísitölu neysluverðs verði þá þegar orðnar um 0,2% sem samræmist verðbólgumarkmiðum Seðlabankans," segir Vilhjálmur í leiðara sínum.

Hann bendir á að þarna sé Seðlabankinn á hættulegri braut: "Hættan við ákvarðanir Seðlabankans er sú að þegar uppsveiflan í hagkerfinu kemur á árinu 2008 trúlega með m.a. nýjum framkvæmdum við álver og virkjanir þarf bankinn að vera í þeirri stöðu að geta hækkað vexti og þar með gengi krónunnar til þess að vinna gegn verðbólguhættu á þeim tíma. En bankinn verður illa í stakk búinn til þess þá vegna þess að vaxtastigið verður alltof hátt á þeim tíma og gengið væntanlega alltof hátt líka. Tilraunir bankans í slíkri stöðu til þess að hækka vexti og keyra gengi krónunnar enn frekar upp kalla mjög líklega fram nýja vantrú markaðsaðila á íslensku efnahagslífi og nýja gengiskollsteypu eins og í mars á þessu ári. Þess ber reyndar að geta að Seðlabankinn spáir því að samdrátturinn í efnahagslífinu komi fyrst í alvöru á árinu 2008 þrátt fyrir að nú séu þrjár stórframkvæmdir í undirbúningi og afar litlar líkur á því að engin þessara framkvæmda verði komin af stað þá."

Í lok leiðarans veltir Vilhjálmur því fyrir sér hvort Seðlabankinn sé að segja sig frá hagstjórninni. "Vegna lágrar hlutdeildar íslensku krónunnar á fjármálamarkaðnum virka vaxtahækkanir fyrst og fremst í gegnum gengi krónunnar. Annars vegar með því að beina eftirspurn út úr hagkerfinu og hins vegar með því að rýra tekjur útflutnings- og samkeppnisgreina. Gengisskellurinn í mars gaf hins vegar til kynna að markaðurinn missi trú á því að síhækkandi gengi íslensku krónunnar standist töluvert löngu áður en svo er sorfið að útflutnings- og samkeppnisgreinum að það dragi nægilega úr tekjumyndun, eftirspurn og verðbólgu eftir þeim leiðum. Því er hætta á að Seðlabankinn sé að segja sig frá hagstjórninni í næstu uppsveiflu með því að lækka ekki vextina nú þegar niðursveiflan er hafin. SA telja að verðbólgan muni lækka nægilega hratt nú og áfram næstu mánuði með minni eftirspurn og breyttum verðbólguvæntingum þrátt fyrir að Seðlabankinn lækkaði vexti og gengi krónunnar yrði í lægri kantinum. Það er engum greiði gerður með því að Seðlabankinn ofnoti tæki sín nú og sé svo óvirkur til að hækka vexti á nýjan leik þegar á þarf að halda sem gæti orðið seint á næsta ári eða í ársbyrjun 2008. "