Peningaleg verðmæti felast í óuppgreiðanleika íbúðabréfa Íbúðalánasjóðs, að sögn Flóka Halldórssonar, framkvæmdastjóra Stefnis, dótturfyrirtækis Arion banka.

Í viðtali við Flóka í Viðskiptablaðinu er komið inn á umræðuna um vanda Íbúðalánasjóðs og hugmyndir sem hafa komið upp um skilmálabreytingar á íbúðabréfum.

„Við höfum fylgst mjög grannt með þessu eins og aðrir. Fyrst ber að taka fram að við teljum hafið yfir allan vafa að á bréfunum er ríkisábyrgð og ég held að flestir séu sammála því. Hvað varðar uppgreiðsluákvæði orðaði fjármálaráðherra það þannig um daginn að fjárfestar ættu að sýna sanngirni. Nú eiga verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir um 130 milljarða að markaðsvirði í íbúðabréfum og sá eiginleiki bréfanna að þau eru óuppgreiðanleg er verðmætur. Þetta eru peningaleg verðmæti og njóta verndar sem slík. Það eru til aðferðir til að  reikna það út hvers virði þessi eiginleiki bréfanna er í krónum. Það er óhugsandi að við getum gefið eftir slík fjárhagsleg verðmæti því þetta er ekki okkar fé, heldur fé hlutdeildarskírteinishafa. Við getum rétt ímyndað okkur viðbrögð þeirra ef við gæfum eftir verðmæti sem þessi, enda stríðir slíkt gegn öllu regluverkinu sem gildir um okkar starfsemi. Framkvæmdastjóri Landsamtaka lífeyrissjóða sagði mjög svipaða hluti um þetta efni í viðtali við Viðskiptablaðið nýlega þar sem hún taldi þessar hugmyndir brjóta í bága við stjórnarskrá,“ segir Flóki.

„Það er hægt að bjóða fólki upp á að skipta óuppgreiðanlegum bréfum fyrir uppgreiðanleg, en fyrir það verður að koma sanngjarnt endurgjald. Ef uppgreiðanleiki bréfanna yrði afnuminn með lagasetningu væri það slík meðferð á eignarréttinum að ég trúi því ekki að stjórnvöld myndu vilja kenna sig við slíkar aðfarir,“ bætir Flóki við.

Lesa má viðtal við Flóka Halldórsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .