„Það hafa margir spáð í húsinu við Sunnuflöt. Tveir hafa sýnt alvöru áhuga. Verðið situr ekki í fólki heldur stærðin. Mörgum finnst það nokkuð stórt,“ segir Eiríkur Svanur Sigfússon, fasteignasali hjá Fasteignasölunni Ási. Húsið er engin smásmíði heldur stærsta einbýlishús landsins. Það er 930 fermetrar að stærð með bílskúr. Lóðin öll er tæpir 1.600 fermetrar og er hún girt af með steypuvegg. Hafist var handa við að byggja húsið árið 2010 og er það fokhelt. Í húsinu eru m.a. 11 herbergi, tómstundaherbergi, vínkjallari, líkamsræktarsalur og sundlaug ásamt gufubaði.

Húsið er í eigu Landsbankans og var það auglýst í fyrrahaust á 93 milljónir króna. VB.is sagði frá því í gær að í fjölmiðlum um helgina hafi verðið verið lækkað niður í tæpar 70 milljónir sem samsvarar um 26% lækkun frá upphaflegu verði.

Svanur segir verðið komið ansi langt niður enda þegar búið að leggja um 90-100 milljónir króna í húsið.

„Verðið er hrikalega sanngjarnt,“ segir hann og bendir á að lóðin sé metin á 20-30 milljónir, teikningarnar á 5-10 milljónir og búið að steypa húsið upp. Þá bendir hann á að meðalverð nýbygginga sé um 240 þúsund krónur að lágmarki á fermetra og að nýbyggingar þurfi að seljast á 300 þúsund á fermetrann. Miðað við það þyrfti sá sem kaupir höllina í Garðabænum að verja um 120 milljónum króna í að klára hana.