Hæstiréttur Íslands hefur ógilt veðsetningar vegna lána sem skrifstofustjóri lífeyrissjóðs fékk hjá vinnuveitanda sínum. Veðin voru í íbúð tengdamóður mannsins. Lífeyrissjóðurinn gerði ekkert formlegt greiðslumat og féllu 40 milljónir króna á tengdamóðurina.

Á árinu 2008 tók skrifstofustjóri Stafa lífeyrissjóðs þrjú lán hjá sjóðnum að fjárhæð 21 milljón króna. Að eigin sögn tók maðurinn lánin vegna framkvæmda á eigin húsi og hugðist hann færa veðlánin á sína eigin fasteign síðar en það gerðist ekki. Auk þessara þriggja lána var maðurinn með fleiri veðlán á sínu nafni og á árinu 2013 námu heildarskuldir vegna þeirra um 100 milljónum króna. Þar af höfðu lánin þrjú, sem voru með veð í eign tengdamóðurinnar, hækkað í 40 milljónir.

Í lok árs 2013 barst tengdamóðurinni greiðsluáskorun frá Stöfum lífeyrissjóði, þar sem hún var krafin um greiðslu á þessum 40 milljónum. Lögmaður tengdamóðurinnar, sem er fædd árið 1926, sendi lífeyrissjóðnum strax bréf þar sem þess var krafist að skuldabréfunum yrði aflýst af fasteign hennar. Stafir lífeyrissjóður hafnaði kröfunni. Í framhaldinu stefndi tengdamóðirin sjóðnum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og var dómkrafan sú að veðskuldabréfin yrðu lýst ógild og óskuldbindandi gagnvart henni.

Í apríl í fyrra féll dómur tengdamóðurinni í vil. Stafir lífeyrissjóður áfrýjaði til Hæstaréttar Íslands, sem í síðustu viku staðfesti dóm Héraðsdóms og gerði lífeyrissjóðnum að greiða konunni eina milljón í málskostnað. Í héraði fékk konan greiddar 870 þúsund í málskostnað.

Fyrir dómi kom fram að ekkert formlegt greiðslumat hefði verið gert vegna lántöku skrifstofustjórans. Fram kemur að árið 2008 hafi útborguð laun hans numið 435 þúsund krónum en athygli vekur að engar upplýsingar um greiðslubyrði lánanna á þessum tíma voru lagðar fyrir dóminn. Aftur á móti kemur fram í skjali frá Umboðsmanni skuldara að árið  2011 hafi mánaðarleg greiðslubyrði allra veðlána skrifstofustjórans, eitt hjá Arion banka og hin hjá Stöfum, numið tæplega 370 þúsund krónum.

Í dómi Hæstaréttar segir að við mat á greiðslugetu skrifstofustjórans hefði lífeyrissjóðurinn um margt átt að eiga hægt um vik, enda um að ræða starfsmann sjóðsins og honum því ljóst hverjar vinnutekjurnar voru.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .