*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 18. mars 2021 21:59

Þarf að leysa inn 1,3 milljarða hlut

Hvalur hf. þarf að leysa inn hluti þriggja hluthafa þar sem félagsstjórn hafi aflað Kristjáni Loftssyni ótilhlýðilegra hagsmuna.

Jóhann Óli Eiðsson
Kristján Loftsson.
Haraldur Guðjónsson

Hval hf. var með þremur dómum Héraðsdóms Vesturlands í gær gert að innleysa tæplega níu milljón hluti í félaginu. Virði umræddra hluta er rúmlega 1,3 milljarðar króna. Dómurinn, sem var fjölskipaður í málinu, klofnaði í afstöðu sinni.

Félagið Hval hf. ætti ekki að þurfa að kynna fyrir lesendum en það hefur um árabil stundað hvalveiðar við Íslandsstrendur þótt messuföll hafi orðið síðustu vertíðir. Stærsti hluthafi þess er Fiskveiðihlutafélagið Venus hf., með ríflega þriðjungshlut, en það er nú í eigu Kristjáns Loftssonar og Birnu Loftsdóttur. Að auki á hann 9,77% beint og hún 0,65%. Saman eiga þau því tæp 47%.

Leiðrétting 19. mars 09:23 Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var staðhæft að Erna ehf. ætti í P126 og Eldhrímni. Það er rangt. Texta fréttarinnar hefur verið breytt af þeim sökum. Lesendur eru beðnir afsökunar á þessum mistökum.

Félögin þrjú sem um ræðir eru P126 ehf., Eldhrímnir ehf. og Erna ehf. Árið 2016 var Erna í jafnri eigu Hallgríms B. Geirssonar, Freys Þórarinssonar, Finns Geirssonar og Áslaugar Geirsdóttur en hluti þeirra hefur oft verið nefndur í sömu andrá og Nói Siríus. Árið 2017 urðu hins vegar eigendaskipti og félagið Hrannblikk ehf., sem er í eigu Benedikts Einarssonar, eignaðist það. Það vill svo til að stjórnarformaður Hvals hf. um skeið var Einar Sveinsson, faðir Benedikts Einarssonar, en sá á P126. Eldhrímnir er í eigu Ingimundar Sveinssonar og hafa félögin þrjú fylgst að á hluthafafundum.

Benedikt reyndi að auka við hlut sinn

Í byrjun árs 2018 sendi Erna bréf á fjölda hluthafa í Hval og bauðst til að kaupa bréf af þeim á genginu 70. Framkvæmdastjóra Hvals var gert viðvart og honum bent á að einhverjir hluthafar kynnu að hafa samband við hann vegna þessa. Í svari framkvæmdastjórans kom fram að félagið ætti forkaupsrétt að hlutabréfum sem gengju kaupum og sölum í félaginu.

Í mars 2018 tilkynnti Erna að þau hefðu náð samningum við ellefu hluthafa um kaup á bréfum þeirra. Samanlagt nafnvirði var rúmlega 14,7 milljónir hluta á genginu 85 krónur á hlut. Samanlagt kaupverð var því tæplega 1,3 milljarðar króna en meðal viðsemjenda var Sigríður Vilhjálmsdóttir, systir Árna Vilhjálmssonar í Hvalnum, einn hluthafa í Venusi.

Áður en kaupin féllu upp fyrir hafði stjórn Hvals fundað til að taka afstöðu til þess hvort forkaupsréttar yrði neitt. Boðað var til hluthafafundar í lok mars 2018 og þar samþykkt tillaga um að heimilt yrði að lækka hlutafé þess sem næmi eigin hlutum og til að kaupa allt að 10% hlut í félaginu fyrir allt að 85 krónur á hlut. Fram til þess hafði stjórn einungis getað keypt bréf á 57 krónur á hlut. Um þremur vikum síðar var síðan tilkynnt um að Vogun hf., dótturfélag Hvals, hefði selt alla sína hluti í Brimi, þá HB Granda, fyrir 21,3 milljarða króna.

Í maí 2018 keypti Kristján bréf af fyrrgreindri Sigríði og Grétari Kristjánssyni, þá stjórnarformanni Hvals, fyrir tæplega 1,2 milljarða króna. Að auki keypti félagið bréf í sjálfu sér af tveimur hluthöfum til viðbótar fyrir rúmlega hálfan milljarð.

Í október sama ár tilkynnti Erna ehf. til stjórnar Hvals að það hefði keypt bréf þrettán hluthafa, samanlagt rúmlega 14 milljón nafnverðshluti á genginu 95. Kaupverð var rúmir 1,3 milljarðar króna. Stjórn Hvals ákvað að neyta forkaupsréttar að hlutabréfunum í nóvember það ár.

Kristján hefði brotið gegn trúnaðarskyldu sinni

Úr því varð nokkur darraðadans á hluthafafundi skömmu síðar. Forráðamaður Ernu, Benedikt Einarsson, spurði þar út í ákvarðanir stjórnarinnar og hví forkaupsréttur hefði ekki verið nýttur í maí þegar Kristján jók við hlut sinn í félainu. Kom fram að viðskiptin hefðu verið gerð í tengslum við uppgjör á Venusi og að seljendur hefðu fengið hluti í Hampiðjunni í staðinn. Umrædd viðskipti hefðu verið kynnt stjórnarmönnum utan fundar í tengslum við fyrirhugaða sölu á bréfum í HB Granda.

Þetta fór ekki vel ofan í fyrrnefndan Benedikt sem krafðist þess að undið yrði ofan af þessum gjörningi þar sem hann hefði verið í andstöðu við hlutafélagalög. Hval bæri að kaupa umrædd bréf þannig að hluthafar yrðu jafnsettir og hefði forkaupsréttar verið neytt. Stjórnin varð ekki við þessu og varð það úr að í byrjun janúar 2019 var þess krafist af Ernu, Eldhrímni og P126 að Hvalur myndi innleysa bréf þeirra. Var dómsmálið höfðað af þeim sökum.

Hefðu vitað að bréfin voru undirverðlögð

Í dómsmálinu var á því byggt að Kristján Loftsson hefði keypt bréf í Hval á verulegu undirverði og að fráfall stjórnar frá forkaupsrétti hefði aflað honum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa. Brotið hafi verið gegn ákvæði laganna sem ætlað sé að tryggja minnihlutavernd og lagaþróun undanfarin ár hafi staðið til þess að styrkja þá vernd enn frekar.

Að mati forsvarsmanna Ernu, matsgerð unnin af Hersi Sigurgeirssyni, dómkvöddum matsmanni, studdi þá niðurstöðu, hafði Kristján keypt bréfin á um það bil hálfvirði. Ekki búi flóknir útreikningar eða ályktanir þar að baki heldur aðeins opinberar upplýsingar á þeim tíma er viðskiptin áttu sér stað. Með því að reikna verðmæti Hvals í skráðum hlutafélögum í Kauphöll fengist ekki sú niðurstaða að virði félagsins væri 16 milljarðar króna, eins og gengið 85 gefur til kynna, heldur nær því að vera um 30 milljarðar króna. Þar af hafi um 70% verið í hlutum í HB Granda.

„Kristjáni og stjórn félagsins hafi að sjálfsögðu verið þetta ljóst. Hefði félagið keypt þessi bréf á þessu verði eða neytt forkaupsréttar síns hefðu aðrir hluthafar félagsins hagnar um u.þ.b. [1.124 milljón krónur], enda hefðu þeir notið góðs af auknum hlutfallslegum eignarhlut sínum í undirliggjandi verðmætum félagsins sem því nemi,“ segir í málsástæðukafla félaganna þriggja.

Að mati félaganna hefði Kristján brotið gegn hlutafélagalögum með því að koma í veg fyrir að félögin þrjú gætu keypt bréfin sjálf á verulegu undirvirði en með því hefði hann brotið trúnaðarskyldur sínar gagnvart Hval. Þess í stað hafi hann nýtt tækifærið sjálfur til að kaupa bréfin á undirverði. Í annan stað hefði stjórn Hvals brotið gegn skyldum sínum með því að neyta ekki forkaupsréttarins.

Hvalur hafnaði kröfunum alfarið

Eilítill blæbrigðamunur var á vörn Hvals eftir því hvaða félag það var hverju sinni til sóknar. Rauði þráðurinn í málsvörninni var þó að því var hafnað að stjórn félagsins hefði borið að neyta forkaupsréttarins. Henni hefði vissulega verið það heimilt en því var hafnað að henni hefði verið það lögskylt. Þá hefði enn fremur ekki blasað við að um „verulegt undirverð“ hefði verið að ræða. Í desember 2017 hefðu til að mynda átt sér stað viðskipti á genginu 70.

Þá var því alfarið hafnað að Kristján hefði svipt Ernu möguleikanum á því að kaupa umrædd bréf eða „stolið“ frá félaginu líkt og haldið var fram í stefnu á stöku stað.

„Jafnvel þótt talið yrði […] að stjórn Hvals hafi borið að neyta forkaupsréttar fái stefndi ekki séð að brotalöm hér á hafi verið þess eðlis að fullnægt sé lagaskilyrðum innlausnar,“ sagði í vörn Hvals. „Matskenndar ákvarðanir félagsstjórna, hvað þá einskiptisákvarðanir, líkt og hér hátti til, geti tæplegast réttlætt innlausn, jafnvel þótt „rangar“ séu.“

Brotið gegn vanhæfisreglu hlutafélagalaganna

Í niðurstöðu dómsins var fallist á það að á stjórnarfundi Hvals í maí 2018, þegar kaup Kristjáns voru til umræðu, hefði verið brotið gegn vanhæfisreglu hlutafélagalaganna. Bæði Kristján og fyrrnefndur Grétar, sem var annar seljenda, hefðu setið þann fund og tekið þátt í umfjöllun um málið. Hið sama gerði Birna Loftsdóttir, systir Kristjáns.

„Enda þótt umræddir kaupsamningar hafi lotið að kaupum Kristjáns, annars vegar af þriðja manni og hins vegar af fyrrnefndum Grétari, verður að líta svo á að ákvörðun um það hvort stjórnin ætti að nýta sér forkaupsrétt sinn og ganga inn í kaupin hefði getað snert hagsmuni allra framangreindra stjórnarmanna, beint eða óbeint, en þó sérstaklega hagsmuni kaupandans Kristjáns, sem augljóslega hafði verulegra hagsmuna að gæta af því hverjar lyktir þessa máls yrðu,“ segir í niðurstöðu dómsins en hann var skipaður tveimur embættisdómurum og sérfróðum meðdómanda sem er löggiltur endurskoðandi.

Af þeim sökum var fallist á því að afgreiðslan hefði aflað Kristjáni ótilhlýðilegra hagsmuna. Eftir stóð að meta hvort skilyrði væru uppfyllt til að fallast á innlausn. Minnihlutaeigendur þyrftu, eðli málsins samkvæmt, að þurfa að sætta sig við að fylgja meirihlutanum að jafnaði. Djúpstæðar og langvarandi þrætur hluthafa gætu hins vegar réttlætt innlausn sem og brot gegn banni við öflun ótilhlýðilegra hagsmuna.

„Með hliðsjón af fjárhagsstöðu [Hvals] og eignarhlut [félaganna] í því verður ekki talið að [krafan] leiði til umtalsverðs tjóns fyrir starfsemi [Hvals] eða sé með öðrum hætti ósanngjörn fyrir það. Þá hefur félagið ekki bent á annan hluthafa sem er reiðubúinn til að taka við hlut [félaganna þriggja], gegn gjaldi sem svari a.m.k. til innlausnarverðisins,“ segir í dóminum.

Þá var ekki fallist á það að félögin hefðu glatað rétti sínum með þáttöku á aðalfundi Hvals síðasta sumar eða að krafa þeirra hafi fallið niður sökum tómlætis. Samkvæmt matskýrslu Hersis var innra virði Hvals gengið 163,3 krónur á hvern hlut og var sú niðurstaða lögð til grundvallar í niðurstöðu dómsins.

Einn dómaranna þriggja, héraðsdómarinn Ásgeir Magnússon, var ósammála meirihlutanum og lýsti þeirri skoðun í séráliti að sýkna bæri Hval af kröfum þeirra.

Að endingu var Hvalur dæmdur til að greiða félögunum þremur þrjár milljónir króna í málskostnað hverju fyrir sig, alls níu milljónir króna.