Sterkar vísbendingar eru um að olíufélögin samhæfi hegðun sína með svokallaðri þegjandi samhæfingu. Þetta kemur fram í frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins, sem ber heitið „Markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði".

Eins og áður sagði telur Samkeppniseftirlitið að vísbendingar séu um að olíufélögin samhæfi hegðun sína með þegjandi samhæfingu (e. tacit collusion). Í henni felst að keppinautar taki gagnkvæmt tillit til hvers annars og fylgist til dæmis að í verðbreytingum. Samhæfingin er þegjandi í þeim skilningi að gagnsæi á markaðnum gerir keppinautum kleift að fylgjast að án þess að eiga í beinum eða óbeinum samskiptum sín á milli.

Útiloka keppinauta

Annað sem Samkeppniseftirlitið telur að takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni er svokölluð lóðrétt samhæfing og aðgangshindranir.

„Olíufélögin (og tengd fyrirtæki) starfa á öllum stigum markaðarins (s.s. innflutningi, birgðahaldi, dreifingu, heildsölu og smásölu) og eru því öll lóðrétt samþætt," segir í skýrslunni. „Rannsóknin sýnir að þau hafa hvata og getu til þess að útiloka nýja keppinauta með því að neita þeim um eldsneyti í heildsölu eða aðgangi að birgðarými. Einnig eru vísbendingar um að félög hafi nýtt sér birgðarými á tilteknum stöðum til þess að hindra innkomu keppinauta."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .