Fjármála- og efnahagsráðherra mælist til þess að fyrirtæki sem ekki þurfa nauðsynlega að fresta staðgreiðslu launatengdra gjalda á mánudag muni greiða þá líkt og ekkert hafi í skorist. Fyrsta umræðu um frumvarps á frestun gjalddaga stendur nú yfir á þinginu en viðbúið er að allt að 22 milljarðar króna muni skila sér seinna í ríkiskassann en ella vegna þessa.

Frumvarpið felur í sér mánaðarfrest til fyrirtækja til að greiða helmings gjalddaga staðgreiðslu og tryggingagjalds. Eindagi gjaldsins er nú á mánudag en helmingur þess mun færast yfir til 15. apríl. Þau fyrirtæki sem þegar hafa greitt geta óskað eftir því að fá endurgreitt og greiða helminginn þá.

Frumvarpinu var dreift í gær og það tekið inn með afbrigðum í dag. Samkomulag er milli flokka á þinginu um að hleypa frumvarpinu í gegn í dag til að það geti haft þau áhrif sem ætlast er til. Þingfundur fer fram með óhefðbundnu sniði í dag og næstu daga en til að mynda hefur verið lengt í atkvæðagreiðslu þannig að ekki þurfi allir þingmenn að vera samtímis í þingsalnum. Þess í stað munu þeir koma inn í hollum til þess verks. Sprittbrúsa hefur þó ekki enn verið komið fyrir í pontu þingsins.

„Áhrif veirufaraldursins eru þegar að birtast okkur. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að þeirri hugmynd að dreifa greiðslu þann 16. mars hafði ekki verið hreyft við mig í síðustu viku. Við sáum hana hins vegar nýtta víða annars staðar og sáum hvatningu frá alþjóðastofnunum vegna hennar. [...] Hlutirnir breytast hratt og á örskömmum tíma var gríðarmikill þrýstingur að ljúka afgreiðslu þessa máls,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í framsöguræðu sinni.

Í máli hans kom fram að fjöldi fyrirtækja treysti á að breytingin færi í gegn til að lausafjárstaða þeirra færi ekki út í veður og vind. Úrræðið muni koma til með að nýtast þeim sem lenda í vanda vegna tekjutaps sem fylgir veirufaraldrinum. Einhverjir rekstraraðilar hafi horft upp á um þriðjung tekna sinna hverfa nánast á einni nóttu.

Ekki má gera of mikið fyrir of marga

„Við gerum ráð fyrir 22 milljarða króna seinkun á tekjum til ríkissjóðs vegna þessarar aðgerðar. Það er helmingurinn af þeirri upphæð sem er á eindaga nú eftir helgi. Við sjáum að þessari fjárhæð að þetta er stór efnahagsleg aðgerð en á sama tíma er ekki alveg augljóst með hvaða hætti við munum sníða lausn fyrir framhaldið,“ sagði Bjarni.

Umrædd aðgerð er flöt einskiptisaðgerð en ekki er víst hvernig framhaldinu verður háttað. Benti ráðherrann á að í framhaldinu muni verða erfitt að draga mörkin. Spurði hann til að mynda hvort minjagripaverslun á Laugarvegi eða úlpusali teldist fyrirtæki í ferðaþjónustu. Fái fyrirtæki sem verða fyrir fjórðungstekjufalli fyrirgreiðslu, hvað ætti þá að gera við rekstraraðila sem missir 23% tekna sinna? Jaðaráhrifin af aðgerðum næstu vikna gætu orðið gríðarleg og ríkið verði að horfast í augu við að heildarsvigrúm sitt, þótt staðan til að takast á við áföll hafi aldrei verið betri, sé ekki ótakmarkað.

„Við erum að stíga fyrstu skrefin til að skilja fjármuni eftir úti í atvinnulífinu. Það verður að hafa í huga að það er ekki hægt að taka endalaust. Mikilvægt er að hvert og eitt skref sem stigið er rati þangað sem áhrifin eiga að koma fram. Annars er hætta á að við gerum of mikið fyrir of marga en alltof lítið fyrir þá sem eru í mestri þörf,“ sagði Bjarni.

Von er á frumvörpum á næstu dögum og vikum. Til að mynda frumvarp um stuðning vegna uppsagna, frumvarp um greiðslur til launþega vegna dvalar í sóttkví og sem og aðgerðir sem fela í sér lækkun á sköttum og skjöldum. Ríkið muni leitast við að aðstoða þá sem eru í mestri þörf.

„Hafandi sagt þetta vil ég koma skilaboðum til allra aðila sem eiga gjalddaga á mánudaginn. Sé fyrirtæki ekki í þeirri stöðu að þurfa á gjaldfresti að halda þá bið ég menn um að standa skil á sínu og að menn séu ekki að taka lán hjá ríkissjóði nema menn þurfi á fyrirgreiðslu að halda. Frumvarpið felur í sér að allir eiga jafnan rétt á að nýta sér þetta svigrúm og ég mun ekki gera athugasemd við að menn geri það. [...] En mikilvægt er að svigrúmið nýtist þeim sem eru í mestri þörf og fyrirtæki sem þurfa ekki á þessu að halda ættu að standa í skilum,“ sagði Bjarni.

Mikilvægt að safna slagkraftinum saman

Eftir að framsöguræðu lauk beindu Oddný G. Harðardóttir, Samfylkingu, Þorsteinn Víglundsson, Viðreisn, og Bergþór Ólason úr Miðflokki andsvörum til ráðherra.

Oddný spurði meðal annars hvort til stæði að fresta eða dreifa gjalddaga virðisaukaskatts sem er í byrjun næsta mánaðar og hvort biðlað yrði til fjármálastofnana um að veita heimilunum í landinu frest á greiðslu vaxta og afborgana. Svaraði Bjarni því að gjalddagi virðisaukaskattsins væri til skoðunar. Hvað stöðu heimilanna varðaði benti Bjarni á það að staðan nú væri allt önnur en árið 2008 og í raun þveröfug. Við byggjum nú við sögulega lágt vaxtastig, í raun það lægsta í sögunni, ekkert verðbólguskot hefði átt sér stað og kjarasamningar nýfrágengnir. Muni þær aðstæður skapast að þörf verði á fyrirgreiðslu í fjármálakerfinu verði það tekið til skoðunar. Hvað einyrkja varðaði væri til skoðunar að veita þeim heimild til að taka út séreignarsparnað.

Þorsteinn Víglundsson spurði ráðherra hvort til skoðunar hefði komið að veita meiri frest á gjalddaganum þannig að aðeins þriðjungur eða fjórðungur skyldi greiðast þá. Við aðstæður sem þessar væri betra að skjóta of hátt yfir markið heldur en skjóta of lágt. Einnig spurði þingmaðurinn hvenær fullmótaðs plans um framhaldið væri að vænta.

„Ég hef fengið þau fyrstu viðbrögð að með því að skilja 22 milljarða króna úti í atvinnulífinu þá séum við að mæta vel væntingum sem gerðar voru til þessarar aðgerðar. [...] Það er gríðarlega mikil óvissa um það hve djúp lægðin veðrur og því ekki tímabært á þessu stigi að vera með fullgerða áætlun. Hins vegar munum við strax í næstu viku kynna allar helstu meginlínur aðgerða sem munu koma til framkvæmda,“ sagði Bjarni.

Benti hann á að lækkun tryggingagjalds hefði verið nefnd til sögunnar en við þá aðgerð væri mikilvægt að vanda til verka. Eitt til tvö prósent lækkun á því gerði ekki annað en að lækka launakostnað atvinnurekenda um þá prósentu út árið. Áhrifin myndu því duga lítið þótt áhrifin á ríkissjóð yrðu gríðarmikil. Mikilvægt væri að safna slagkraftinum saman og kýla aðgerðir í gegn þar sem áhrifunum væri ætlað að koma fram.

„Ég hvet ekki til 1-2% lækkunar tryggingagjaldsins út árið heldur fullt afnám þess í einn til þrjá mánuði. Við þurfum afgerandi aðgerðir til skemmri tíma á meðan óvissan er sem mest,“ sagði Þorsteinn. Þá væri mikilvægt að undanskilja ekki hópa á borð við sjálfstætt starfandi einstaklinga. Einfalt gæti verið að undanskilja ákveðna hluti eða fyrirtæki en það væri mjög erfitt að afmarka hvar áhrifunum sleppir.

Ráðherra ekki talsmaður „smáskammtalækninga“

Bergþór Ólason spurði síðan ráðherra hvort fyrir lægi mat á því hver möguleg heildareftirgjöf ríkisins gæti orðið. Það er hve miklu ráðherrann teldi að ríkið gæti ráðstafað með góðu móti til að skilja eftir varanlegt súrefni fyrir atvinnulífið.

„Þegar við metum aðgerðir stjórnvalda þurfum við að taka með í reikninginn sveiflujöfnun kerfisins í heild eins og það er byggt upp. Tekjuöflunarkerfin eru með mikla innbyggða sveiflujöfnun. [...] Ríkissjóður tekur á sig tugmilljarða tap fyrir utan allar sértækar aðgerðir sem gripið verður til. Hvað heildarumfang aðgerða þá get ég ekki svarað því á þessari stundu. Ég get þó sagt að ég mun ekki verða talsmaður smáskammtalækninga í þeim efnum,“ sagði Bjarni. Framundan væri samtal við atvinnulífið um hvaða aðgerðir myndu helst gagnast.

„Tökum eitt dæmi. Það myndi til dæmis lítið gagnast að ef tekjuskattur fyrirtækja vegna ársins 2019 yrði lækkaður ef rekstur þeirra er þannig að þau væru ekki líkleg til að greiða þann skatt fyrir árið. Það gæti hljómað sem yfirgripsmikil aðgerð en ef hann er hvort sem er að falla þá er hún ekki líklegt til að gagnast eins mikið og hún myndi hljóma á yfirborðinu. Við höfum smíðað kerfi sem er þannig að það skilur eftir fjármuni ef það er enginn hagnaður. Þetta þurfum við að hafa í huga. Ríkið er að fara að taka á sig verulega dýfu og taka á sig að fjármagna samneysluna þótt fyrirtækin leggi ekki af mörkum,“ sagði Bjarni.

Fyrstu umræðu um frumvarpið lauk skömmu fyrir klukkan tólf og er það nú til umfjöllunar í nefnd. Afgreiðslu þess lýkur í dag.