*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Erlent 21. október 2019 18:07

Þingforseti stöðvar Brexit atkvæðagreiðslu

Forseti Breska þingsins neitar að verða við ósk forsætisráðherra um atkvæðagreiðslu um Brexit í dag.

Ritstjórn
Breska þingið mun ekki klára Brexit-samninginn í dag eins og forsætisráðherrann Boris Johnson stefndi að.
european pressphoto agency

John Bercow, þingforseti Breska þingsins, neitaði í dag að verða við beiðni ríkisstjórnarinnar um að Brexit-samninginn, sem gerður var í síðustu viku, yrði tekinn til atkvæða í þinginu. Bar forsetinn því við að málið væri að þeirri stærðargráðu að þingið yrði að fá lengri tíma til þess að ræða efnisatriði þess áður en til atkvæðagreiðslu kæmi. 

BBC greinir frá þessu og segir að talsmaður ríkisstjórnarinnar hafi í opinberri yfirlýsingu harmað ákvörðun þingforsetans en áréttað að stjórnin muni vinna áfram að þeim lagabreytingum sem gera þurfi til þess að samningurinn geti orðið að veruleika.  

„Forsetinn hefur enn á ný neitað okkur um tækifæri til að framkvæma vilja íbúa Bretlands,“ hefur BBC eftir talsmanni ríkisstjórnarinnar. 

Aðeins eru tíu dagar þar til Bretland yfirgefur Evrópusambandið og liggi samningur ekki fyrir fyrir þann tíma hefur Boris Johnson lýst því yfir að Bretland muni yfirgefa Sambandið án samnings. Til þess að samningurinn fá gildi þarf ekki einvörðungu breska þingið að samþykkja hann heldur líka Evrópuþingið. 

Boris Johnson skrifaði, að kröfu þingsins, Evrópusambandinu um helgina beiðni um lengri frest ef samningurinn verður ekki afgreiddur fyrir 31. október næstkomandi.  Evrópusambandið hefur hins vegar ekki gefið út hvort það verði við beiðninni.