Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, varar við tilboðum bílaumboðanna um vaxtalaus bílalán. Að minnsta kosti fjögur bílaumboð hafa auglýst svoleiðis lán að undanförnu.

„Þegar betur er gáð þá eru vaxtalausu lánin alls ekki ókeypis. Því „vaxtalaus“ lán frá bifreiðaumboði bjóðast bara þeim sem sætta sig við að fá ekki afslætti eða aukahluti í kaupbæti sem bjóðast þeim sem staðgreiða eða greiða með venjulegu bílaláni. Það geta vart talist góðir viðskiptahættir að auglýsa að lán sé vaxtalaust ef neytandinn greiðir ígildi vaxta með öðrum hætti,“ segir Frosti á vefsíðu sinni.

Hann bendir á að í lögum 33 frá 2013 um neytendalán sé sú skylda lögð á lánveitendur að birta lántakendum árlega hlutfallstölu kostnaðar. Þar sé átt við vexti, lántökukostnað, lántökugjöld, seðilgjöld og fleira. „Ákvæðinu er ætlað að auðvelda neytendum að gera samanburð á heildarkostnaði ólíkra lána og þannig stuðla að virkari samkeppni.

Bifreiðaumboð sem auglýsa vaxtalaus lán hafa mér vitanlega ekki birt lántakendum árlega hlutfallstölu kostnaðar af þeim lánum,“ segir Frosti. Sé það ekki gert þurfi að bæta úr því. „Ég vil ekki trúa því að bifreiðaumboðin vilji sniðganga lög um neytendavernd,“ segir Frosti.

Þá varar Frosti fólk líka við því að kaupa neysluvarning eins og bíla á lánum. „Vextir af neyslulánum eru gríðarlega háir og varningurinn fellur hratt í verði eftir kaupin. Það er mun æskilegra að safna fyrir neysluvörum og staðgreiða þær,“ segir hann.