Þingmenn Repúblikana voru súrir eftir að samkomulag náðist í fulltrúadeild bandaríska þingsins í nótt þess efnis að tekjuháir einstaklingar greiði hærri skatta en áður og aðhaldsaðgerðum hins opinbera var frestað um tvo mánuði. Bandaríska dagblaðið The Washington Post segir frá því á vef sínum að John A. Boehner, leiðtogi flokksins í fulltrúadeildinni, hafi ekkert viljað segja áður en gengið var til kosninga um málið vestanhafs í nótt. Þá sagði hann heldur ekki orð þegar málið var í höfn eins og venja er í þinginu.

Hagfræðingar og aðrir fjármálasérfræðingar í Bandaríkjunum hafa varað við áhrifum þess ef ekkert samkomulag hefði náðst. Þá hefðu skattahækkanir orðið víðtækari en raunin varð, kaupmáttur gæti dregist saman og skuldir hins opinbera hugsanlega farið langt upp yfir skuldaþakið svokallaða. Við þær aðstæður hefði þjóðin húrrað fram af því sem kallað hefur verið fjárlagaþverhnípið (e. fiscal cliff) og kreppa skollið á á nýjan leik.

Í umfjöllun The Washington Post af málinu segir m.a. að þótt Repúblikanar hafi verið á móti því að skattar á ákveðna tekjuhópa yrðu hækkaðir þá hafi þingmenn flokksins ekki viljað taka áhættuna og skrifað undir samkomulagið enda mikið undir.