Ráðgjafarfyrirtækið Vendum, sem sérhæfir sig í markþjálfun fyrir einstaklinga og fyrirtæki, hefur gert samstarfssamning við Elínu Hirst um námskeið og þjálfun fyrir stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja sem tengjast fjölmiðlum. Munu námskeiðin t.d. taka á framkomu í sjónvarpi sem og ráðgjöf varðandi fjölmiðlasamskipti, m.a. þegar áföll verða.

Elín segir að það séu oft mjög einfaldir hlutir sem þarf að leiðrétta hjá fólki. „Dæmi um það er þegar fólk er að horfa í vitlausa átt. Þú átt að horfa beint í augu spyrilsins og halda því augnsambandi allt viðtalið. Myndavélin er mjög frek og ýkir allar augngotur. Ef þú horfir í aðrar áttir en beint á spyrilinn getur þú litið illa út. Þá er náttúrlega bannað að horfa í myndavélina sjálfa. Þegar fólk er taugaveiklað er mjög algengt að það gjóti augunum til hliðar eða opni þau og loki of oft. Þetta sendir óheppileg skilaboð til áhorfenda. Þá er líka mikilvægt að sitja kyrr en ekki vera á ferð og flugi í stólnum.“