Evran hefur ekki verið veikari síðan í mars 2015 og ítölsk skuldabréf hafa lækkað talsvert í kjölfar þess að Matteo Renzi sagði af sér sem forsætisráðherra Ítalíu. Afsögn Renzi kom í kjölfarið þess að ítalskir kjósendur höfnuðu stjórnarskrárbreytingum í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær.

Evran veiktist mest meðal 16 helstu gjaldmiðla heimsins. Ávöxtunarkrafa á 10 ára skuldabréfum í Ítalíu náði hámarki síðustu þriggja vikna.

Haft er eftir Jens Peter Sorensen, greiningaraðila hjá Danske Bank í viðtali við Bloomberg , að þjóðaratkvæðagreiðslan hafi þó haft takmörkuð áhrif vegna þess að stór hluti hafi búist við því að atkvæðagreiðslan myndi fara á þennan hátt. Hann bætir því þó við að hann sé ekki bjartsýnn á framtíðarhorfur og telur það neikvætt að í einu stærsta evruríkinu ríki pólitísk óvissa.

Evran veiktist um 0,2% gegn dollaranum í morgun eftir að hafa veikst um 1,5% fyrir það og hefur ekki verið veikari í 20 mánuði.