Þjóðerni sjötta hvers ferðamanns sem kemur til landsins hefur verið að huldu, þegar litið er til talningar ferðamanna á Keflavíkurflugvelli. Stærð hópsins sem flokkaður er sem „aðrir“ í talningum við vopnaleitina í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur farið sístækkandi í takt við ferðamannastrauminn. Þetta kemur fram í frétt Túrista um málið.

Það ætti þó að draga úr stærð hans þegar ítarlegri talning verður tekin upp. Eins og sakir standa eru ferðamenn flokkaðir eftir sautján þjóðernum. Næst þegar ferðamannatölur verða kynntar verður talningin bætt og nú munu í fyrsta skiptið fást upplýsingar um fjölda ferðamanna frá Írlandi, Austurríki, Belgíu, Indlandi, Ísrael, Hong-Kong, Suður-Kóreu, Taívan, Singapúr, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Eystrasaltslöndunum.