*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 16. júní 2018 11:09

Þjóðhagsvarúð of pólitísk

Hagfræðiprófessor telur peningastefnu á grundvelli þjóðhagsvarúðar grafa undan trúverðugleika Seðlabankans.

Snorri Páll Gunnarsson
Jón Daníelsson, hagfræðiprófessor við London School of Economics.
Eva Björk Ægisdóttir

Jón Daníelsson, hagfræðiprófessor og forstöðumaður rannsóknarseturs um kerfislæga áhættu við London School of Economics, segir varhugavert að fela Seðlabanka Íslands aukið vald við að fyrirbyggja áhættu í fjármálakerfinu á grundvelli þjóðhagsvarúðar. Stærsta vandamál slíkrar stefnu sé skortur á trúverðugleika og sjálfstæði Seðlabankans.

„Það er háleitt markmið að ríkisvaldið feli Seðlabankanum einum þá ábyrgð að hafa eftirlit með fjármálakerfinu og viðhalda fjármálastöðugleika. Það er fátt sem bendir til að það gangi upp. Þjóðhagsvarúð er einfaldlega of móðukennd og pólitísk til þess að Seðlabankinn geti tekið hana að sér samhliða því að reka trúverðuga peningastefnu,“ segir Jón.

Starfshópur um endurskoðun peningastefnu Íslands, sem skilaði tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar í síðustu viku, lagði meðal annars til að peningastefna Íslands til framtíðar skyldi grundvallast á þjóðhagsvarúð. Seðlabankinn skyldi einn bera ábyrgð á fjármálastöðugleika og beitingu þjóðhagsvarúðartækja. Jafnframt skyldi fjármálastöðugleiki hafa forgang yfir verðstöðugleika þegar hinu fyrrnefnda er ógnað. Þannig gæti sjálfstæð peningastefna gengið upp í litlu, opnu hagkerfi.

Trúverðugleikinn lagður að veði

Jón segir að seðlabankar séu sjálfstæðir vegna þess að fólk treysti ekki stjórnmálamönnum fyrir því að ákvarða vexti. Það fyrirkomulag gangi upp vegna þess að hlutverk Seðlabankans sé skýrt. Þetta eigi þó ekki við um þjóðhagsvarúð.

„Í baráttunni við verðbólgu hafa Seðlabankar eitt tæki – stýrivexti – og eitt skýrt og mælanlegt markmið – verðbólgu. Þjóðhagsvarúð er á hinn bóginn flókin og illa skilgreind. Hún felur í sér að seðlabankar búi yfir mörgum ónákvæmum og ósamkvæmum þjóðhagsvarúðartækjum sem eru bitlaus þegar kemur að því að stýra kerfisáhættu,“ segir Jón. Þar að auki sé erfitt, ef ekki ómögulegt, að mæla kerfisáhættu, á sama tíma og áhættutaka færist í auknum mæli utan hins eftirlitsskylda fjármálakerfis með beitingu þjóðhagsvarúðartækja.

„Þetta gerir þjóðhagsvarúðarstefnu að erfiðu pólitísku viðfangsefni. Til þess að slík stefna gangi upp þarf að ríkja pólitísk samstaða um það hvaða tækjum eigi að beita og hvenær, auk þess hversu langt eigi að ganga í inngripum og reglusetningu.“

Þar sem þjóðhagsvarúð krefst pólitísks stuðnings verður Seðlabankinn því fyrir pólitískum þrýstingi.

„Seðlabankinn gæti fundið fyrir þrýstingi frá Alþingi að  „gera eitthvað“ eða halda að sér höndum þegar það á ekki við. Það gæti haft neikvæð áhrif á hagvöxt eða magnað hagsveifluna. Það grefur einnig undan trúverðugleika og sjálfstæði Seðlabankans við að framfylgja peningastefnu með skilvirkum hætti. Þjóðhagsvarúð yrði því raunverulega í höndum stjórnmálamanna, sem skapar hættu á rentusókn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.