Þjóðskrá Íslands birtir á morgun upplýsingar um húsaleigu eftir staðsetningu og stærðarflokkum fasteigna á landinu. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt er gert hér á landi og hyggst Þjóðskrá hér eftir birta mánaðarlega leiguverð og vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu.

Á síðustu mánuðum hafa Þjóðskrá Íslands og Íbúðalánasjóður átt samstarf um skráningu upplýsinga um leiguverð úr þinglýstum leigusamningum. Samningur var gerður á milli þeirra um að sjóðurinn kosti uppsetningu leiguskráningarkerfis og skráningu þinglýstra leigusamninga 2011 og 2012.

Í sameiginlegri tilkynningu kemur fram Þjóðskrá telur skráninguna auka gagnsæi og skilvirkni á leigumarkaði en að mati Íbúðalánasjóðs hefur skortur á áreiðanlegum leiguverðsupplýsingum lengi staðið leigumarkaði fyrir þrifum.