*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 4. mars 2017 10:37

Þjónustar Visa og Airbnb

Fyrirtækið Verne Global var eitt þeirra fyrstu sem riðu á vaðið með opnun gagnavers hér á landi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Jeff Monroe er framkvæmdastjóri fyrirtækisins Verne Global sem var stofnað árið 2007 þegar hann og fleiri sáu fram á það að með aukinni tengigetu var nú hægt að staðsetja gagnaver hvar sem er í heiminum og láta þá orkukostnað og aðra slíka þætti vera ráðandi.

Fyrirtækið þjónustar tölvufyrirtæki hér heima og út um allan heim, og má þar meðal annars nefna BMW og Volkswagen, en nýlega gerði fyrirtækið tímamótasamning við ThreatMetrix sem sér um að tryggja öryggi millifærslna fyrir stórfyrirtæki eins og Visa, Ticket Master, TripAdvisor, BestBuy og Airbnb.

„Það sem er sérstakt við ThreatMetrix er að þetta er gríðarstórt fyrirtæki sem verndar yfir 20 milljarða millifærslna og hafa þeir hjálpað til við að koma í veg fyrir yfir 15 milljarða dala tap vegna svika. Fyrirtækið er leiðandi í rafrænum skilríkjum og þarf því á stöðugri og reglulegri tölvuúrvinnslu að halda,“ segir Jeff, en fyrirtæki hans leggur áherslu á öryggi í gagnavinnslu og segir hann Ísland vera alveg sérlega heppilegt í því.

„Nýlega kom út skýrsla þar sem Ísland var skilgreint sem tryggasti staðurinn á jörðinni fyrir gögn. Í fyrsta lagi hafið þið góð persónuverndarlög, þjóðfélag ykkar er mjög stöðugt, þetta er eyja svo það er ekki jafnauðvelt að komast til og frá staðnum og víða annars staðar, svo hafið þið innviði eins og raforkukerfið sem var byggt fyrir álverin og er gríðarlega áreiðanlegt, svo hafið þið menntað vinnuafl, mjög litla hættu á hryðjuverkum og svo framvegis. Þetta skiptir allt máli.“

Jeff, sem er með starfsaðsetur sitt í Washington-borg í Bandaríkjunum, eyðir tíma sínum í að fara heimshorna á milli til að eiga samskipti við viðskiptavini fyrirtækisins auk þess að koma hingað til lands en gagnaver fyrirtækisins er á Ásbrú í Reykjanesbæ í tveimur gömlum skemmum frá veru bandaríska hersins hér á landi.

„Þetta hófst í raun með því að Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, var að keyra fram hjá vöruskemmunum um það leyti sem bandaríski herinn yfirgaf landið og hann nefndi það við einn af fjárfestum sínum að þetta væri góður staður fyrir gagnaver. Þetta var fyrsti neistinn sem kom hugmyndinni af stað,“ segir Jeff en einn af fjárfestunum í CCP var einnig einn þeirra fjárfesta sem komu að stofnun Verne Global.

Nánar má lesa um málið í blaðinu Orka og Iðnaður, fylgiriti Viðskiptablaðsins 2. mars. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.