Þóra Eggertsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður fjármála- og upplýsingatæknisviðs hjá Flugfélagi Íslands. Þóra hefur verið forstöðumaður fjármálastýringar og áhættustýringar hjá Landsneti frá árinu 2012, hún var stofnandi og fjármálastjóri Puzzled by Iceland á árunum 2010 til 2013 og þar áður starfaði hún hjá Landic Property sem verkefnastjóri í fjárstýringu.

Á árunum 2005 til 2008 starfaði Þóra í Japan hjá fyrirtækjunum Morgan Stanley Capital KK, Daimler Chrysler, Japan Holding Ltd. og Nissan Motor Co. Ltd. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Flugfélagi Íslands.

Þóra lauk námi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík 2003, nam markaðsfræði við EADA Business School í Barcelona 2004 -2005, lauk verðbréfamiðlun frá HR 2013 og stundar nú MBA nám í stjórnun og stefnumótun við sama skóla, því námi lýkur hún á komandi vori.

Þóra er gift Bjarna Erni Kærnested og eiga þau tvö börn.