Þorgeir Örlygsson var kjörinn forseti Hæstaréttar fyrir tímabilið 1. janúar 2017 til 31. desember 2021 á fundi dómara Hæstaréttar Íslands sem fór fram í gær.

Þorgeir er fæddur 13. nóvember 1952 og lauk hann embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands. Hann lauk jafnframt meistaraprófi (LL.M) í þjóðarrétti og alþjóðlegum einkamálarétti frá Lagadeild Harvard háskóla í Bandaríkjunum árið 1980. Þorgeir var prófessor við lagadeild Háskóla Íslands á árunum 1986 til 1999. Á árunum 1994 til 1996 var hann deildarforseti lagadeildar Háskóla Íslands.

Þá var hann settur ráðuneytisstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum 1999 til 2003, en frá þeim tíma hefur Þorgeir starfað sem dómari við EFTA-dómstólinn í Lúxemborg.

Helgi I. Jónsson var jafnframt kjörinn varaforseti Hæstaréttar.