„Við erum öll mjög spennt og ánægð með tilnefningarnar tvær,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, forstjóri og stofnandi Plain Vanilla. Fyrirtækið heldur úti spurningaleiknum QuizUp, sem hefur verið tilnefndur til tvennra Webby-verðlauna. Í tilkynningu þar sem viðbrögð Þorsteins eru birt segir að leikurinn hafi verið tilnefndur sem besti leikurinn fyrir snjalltæki og besti fjölspilunarleikurinn fyrir snjalltæki. QuizUp keppir við leikina Dots, Badland, Limbo og Dumb Ways to Die í flokki farsímaleikja og við app frá Nike, Scrabble og leik úr smiðju Google í flokki fjölspilunarleikja fyrir farsíma.

Webby-verðlaunin hafa verið afhent síðan 1996 og eru almennt talin þau virtustu af sínu tagi. Þess má geta að Björk Guðmundsdóttir hlaut verðlaunin á síðasta ári fyrir besta tónlistarmyndbandið að mati netnotenda. Verðlaunin verða afhent 20. apríl næstkomandi.

Í tilkynningunni er áfram vitnað til Þorsteins:

„Við vorum bara að frétta þetta í gær, en eins og er þá stöndum við mjög vel í kosningunni meðal netnotenda, sem er feikilega gaman,“ segir hann.

Hér er hægt að taka þátt í kosningunni: Webby-verðlaunin .