Aðspurður um inngöngu í Evrópusambandið og möguleg áhrif Íslands þar segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, að Íslendingar myndu engin áhrif hafa í sambandinu.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Þorstein Má í áramótatímariti Viðskiptablaðsins en Samherji hlaut sem kunnugt er Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins fyrir árið 2011.

Samherji á fjölda dótturfélaga sem starfa í sjávarútvegi innan Evrópusambandsins. Hann þekkir sjávarútvegsstefnu sambandsins því mjög vel og hefur mikla reynslu af því.

„Sumir halda því fram að við munum hafa áhrif í sjávarútvegsmálum því Íslendingar séu svo stórir. Þetta er alrangt. Hvorki Þjóðverjar, Pólverjar, Englendingar né aðrir ætla að láta okkur hafa sérstök áhrif í sjávarútvegsmálum umfram það sem segir í reglum Evrópusambandsins,“ sagði Þorsteinn Már í viðtalinu.

„Ég horfi á þetta út frá reynslu minni því ég hef unnið að sjávarútvegsmálum innan ESB í vel á annan áratug. Afstaða mín mótast af því. Þegar verið er að ræða inngöngu í ESB nefna menn gjarnan afnám verðtryggingar og lægri vexti sem helstu kosti. Þriðja atriðið sem oft er nefnt, er lægra matvælaverð. Það byggir væntanlega á því að hingað verður hægt að flytja inn matvæli óheft. Við spyrjum hins vegar ekki hvað þurfi til að lækka matvælaverð á Íslandi. Hér eru lagðir skattar og tollar og gjöld á ýmislegt sem hækkar matarverð. Til dæmis má nefna gjald á fóður sem hækkar framleiðslukostnað á svínakjöti og kjúklingum. Það er ákvörðun stjórnvalda að matvælaverð sé hátt á Íslandi.“

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, heldur ræðu við afhendingu Viðskiptaverðlauna og Frumkvöðlaverðlauna Viðskiptablaðsins á Grillinu þann 29.12.11. (Mynd: Sigurjón Ragnar)
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, heldur ræðu við afhendingu Viðskiptaverðlauna og Frumkvöðlaverðlauna Viðskiptablaðsins á Grillinu þann 29.12.11. (Mynd: Sigurjón Ragnar)

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, heldur ræðu við afhendingu Viðskiptaverðlauna og Frumkvöðlaverðlauna Viðskiptablaðsins á Grillinu þann 29.12.11. (Mynd: Sigurjón Ragnar)