Upp hefur komist um lygar kínverska fjárfestisins Lin Chunping. Hann komst í fréttirnar í byrjun árs þegar hann greindi frá því að hann hafi í júní í fyrra tekið yfir rekstur bankans Atlantic Bank í Delaware í Bandaríkjunum sem farið hafði á hliðina.

Í fjölmiðlum var haft eftir fjárfestinum að upphaflega hafi bankinn átt að kosta 600 milljónir dala. Hann hafi hins vegar prúttað og náð verðinu niður í 60 milljónir, jafnvirði tæpir 7,6 milljarðar króna.

Í netútgáfu Telegraph er því lýst hvernig kaupin áttu að hafa átt sér stað. Fjárfestirinn átti að hafa farið í þrot í bankahruninu fyrir fjórum árum, Chunping tryggt sér hann og stefni á að gera bankann íburðameiri undir nýju nafni. Það átti að vera USA New HSBC Federation Consortium Inc.

Blaðið segir Chunping hafa verið hampað í kínverskum fjölmiðlum og þau opnað honum dyr í kínversku stjórnsýslunni sem alla jafna eru lokaðar.

Blaðamenn og netverjar voru hins vegar ekki jafn trúgjarnir og hófu að rannsaka málið. Eins og Telegraph lýsir málinu fundu þeir engin gögn sem sýndu fram á tilvist Atlantic Bank í Delaware og gengu þeir á Chunping í mars. Fjárfestirinn boðaði til blaðamannafundar í kjölfarið og gekkst þá við því að hafa ýkt málið nokkuð, sagði kaupin í raun ekki alveg í höfn. Í reynd væru þau á fyrstu stigum og það viðkvæmum og því gæti hann ekki farið í saumana á þeim. Það eins og annað hefur reynst skáldskapur.

Eins og til að bæta gráu ofan á svart hefur evrópski bankinn HSBC farið í mál við Lin Chunping fyrir að ætla að nota nafn bankans.

Chunping var handtekinn í síðustu viku og færður í fangelsi á laugardag.