Íslenskt fyrirtæki býður íbúðareigendum að sjá alfarið um bókanir, þrif og annað umstang vegna skammtímaleigu íbúða á vefsíðunni Airbnb. Á meðal þjónustu fyrirtækisins Dekura er að leiðbeina íbúðareigendum um þann húsbúnað sem þarf í íbúðina, að taka myndir af íbúðinni og setja Airbnb-síðu í loftið.

Þær íbúðir sem eru í umsjón Dekura eru aðallega í miðborg Reykjavíkur. Tekjur leigusala af útleigu á Airbnb eru vitanlega mismiklar og fara til að mynda eftir stærð íbúðar og staðsetningu hennar. Kostnaðurinn við þjónustu Dekura er mismunandi eftir eðli íbúðarinnar en Davíð Karl Wiium, annar stofnenda fyrirtækisins, segir það hafa verið að fá um 30% af leigutekjum, að virðisaukaskatti undanskildum.

Aðspurður metur Davíð Karl það sem svo að í góðum ágústmánuði geti leigusali geti vænst þess að hafa um 600.000 króna tekjur af leigu íbúðar í miðbænum sem tekur fjóra gesti. Þá á eftir að draga frá alla skatta og gjöld vegna íbúðarinnar. Í sumum tilfellum getur upphæðin verið meiri.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er markaðsverð langtímaleigu á 2-3 herbergja íbúð í miðborg Reykjavíkur í kringum 200-250 þúsund krónur um þessar mundir. Í góðum mánuði virðast eigendur íbúða í miðborginni því geta tvöfaldað eða jafnvel þrefaldað vergar tekjur af íbúðum sínum með því að leigja þær út á Airbnb frekar en á almenna leigumarkaðnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .