Í júlí voru heildarlaunagreiðslur í ferðaþjónustu um 31% lægri í ár en á sama tíma fyrir ári síðan samkvæmt samantekt Hagstofunnar , en stofnunin gerir ráð fyrir því að flestir sem misstu vinnuna í einkennandi greinum hennar í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar hafi fengið sínar síðustu launagreiðslur í júlí og ágúst.

Þrátt fyrir þetta hækkuðu heilarlaunagreiðslurnar um 10% á milli júní og júlí í ár, meðan fjölgun starfandi í geiranum var 4% milli mánaðanna, en fækkunin var tæplega 33% á milli áranna í júlí.

Áhrif veirunnar á ferðaþjónustu sjást vel í öðrum tölum Hagstofunnar , en 35% færri, eða 20 þúsund manns í heildina, störfuðu í einkennandi geirum ferðaþjónustunnar í júnímánuði. Ef horft er á allan annan ársfjórðung drógust tekjur af erlendum ferðamönnum saman um 90% milli ára, eða úr 118 milljörðum í 12 milljarða.

Velta fyrirtækja í geiranum dróst svo saman um 67% milli ára í maí og júní, úr 112,5 milljörðum í 37 milljarða, en lækkunin er meiri ef horft er á aðrar einkennandi greinar ferðaþjónustunnar en veitingasölu, eða 74% samdrátt.

Í ágúst drógust gistinætur á hótelum saman um 58%, úr tæplega 5523 þúsund í 221 þúsund milli ára, en þar af fækkaði gistinóttum útlendinga um 79% milli ára, en mikil fjölgun var á gistinóttum Íslendinga á sama tíma, eða úr 38 þúsund í ágúst 2019 í 121 þúsund í sama mánui í ár.